02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

39. mál, vörutollur

Flm. (Jón Sigurðsson):

Enda þótt frv. þetta ræði um toll, þá er það þó eigi í eðli sínu tekjuaukafrumvarp. Það er eigi fram komið til þess að afla landsjóði beinna tekna. Þeir tollar, er hjer ræðir um, eru verndunartollar. Tilgangur frv. er í fám orðum sá, að vernda nokkrar greinar íslenskrar framleiðslu, og þá einkanlega þær greinar, sem eru mikilsverðastar eða eru á byrjunarstigi.

Fyrst er þá að athuga, hvort nokkur þörf sje á slíkri vernd.

Áður en heimsstyrjöldin skall á, var sú skoðun algeng, bæði hjer á landi og annarsstaðar, að þá væri fjárhag hvers lands borgið, ef innfluttar vörur næmu eigi meira verði en útfluttar. Um það, hvernig gengi til með skifti innanlands, skifti eigi miklu máli, ef verslunarjöfnuður væri við önnur ríki.

Styrjöldin mikla sýndi mönnum aftur á móti fram á sannleikann í máltækinu „holt er heima hvað.“ Þær þjóðir eru nú best staddar, er best hafa getað fullnægt eigin þörfum. Erlendar þjóðir hafa látið sjer reynslu þá, er stríðið færði þeim, sjer að kenningu verða. Til dæmis hafa frændur vorir Norðmenn komið á hjá sjer svipuðum tolllögum og hjer er um að ræða.

Eigi er svo, að reynslan hafi ekkert kent oss nú á þessum erfiðu tímum. En vjer höfum ekkert aðhafst enn þá, þrátt fyrir gjaldeyrisvandræðin, sem valda svo miklum erfiðleikum með innflutning erlendrar vöru.

Enginn neitar því, að nauðsyn sje á því að hefjast handa nú, vinna að aukinni ræktun landsins og Reyna að gera framleiðsluna fjölbreyttari og verðmætari. Hvorttveggja er dauðadæmt, ef erlendar þjóðir bola okkur burt á okkar eigin innlenda markaði. Til dæmis skal jeg geta þess, að íslenskum bændum er ókleift að framleiða kjöt fyrir sama verð og Ástralíu- og Argentínubúum eða fyrir það verð, er það seldist í fyrra á enskum markaði. Það er líka erfitt fyrir okkur að keppa við þjóðir, sem hafa enn lægra gengi; má þar til nefna samkepni okkar við Frakka um gráðaostinn.

Ef aukin ræktun og fjölbreyttari á að verða annað en fálm út í loftið, þá verður að vernda hana. Ýmsar erlendar þjóðir eru nú aftur farnar að grípa til verndunar framleiðslu sinnar á þennan hátt. Jafnvel Englendingar, þar sem fríverslunin hefir lengst og mest drotnað, eru nú að hverfa að þessu ráði.

Nú, þegar aðrar þjóðir eru farnar að gera oss erfitt fyrir, með því að leggja innflutningstoll á afurðir vorar, svo sem kjöt, ull o. s. frv., þá verðum vjer að grípa til ráða þeirra, er næst liggja: leggja innflutningstoll á þær vörur, er vjer megum helst án vera og framleiða má í landinu sjálfu. Það getur orðið oss stórhættulegt að hafa dyrnar upp á gátt, þegar aðrar þjóðir loka þeim fyrir oss, að minsta kosti í hálfa gátt.

Jeg ætla mjer eigi að ræða um einstaka liði frv.

Vörur þær, er hjer ræðir um, er, eins og jeg hefi þegar tekið fram, hægt að framleiða allar hjer á landi og gæti því tollurinn gert tvent: fleytt framleiðslugreinum þeim, er nú eru í byrjun, yfir erfiðustu árin, og jafnframt verið landsmönnum hvöt til þess að framleiða sjálfir það, sem erfitt er að ná annarsstaðar. En gæta verður þess að verka alla vöru sem best, og eigi síður en útlendingar gera, ef unt er; markmiðið á að vera, að innlend framleiðsla fullnægi sem flestum þörfum okkar.

Álitamál er það, hvort eigi bæri að taka fleiri vörutegundir, svo sem jarðepli, með í frv. í tillögum, sem Búnaðarfjelag Íslands sendi stjórnarráðinu, er gert ráð fyrir að jarðepli verði tekin með. Það er nú vitanlegt, að landið getur framleitt næg jarðepli til neyslu innanlands, og eigi vansalaust meðan svo er eigi. En eins og stendur, mun framleiðslan eigi vera næg til verslunar innanlands, en jarðepli ein af helstu nauðsynjavörum. Þótti oss því eigi rjett að tolla þau að þessu sinni.

Sumum kann ef til vill að þykja tollurinn of lágur. Við flm. höfum í flestum liðum verið fyrir neðan það, er Búnaðarfjelagið lagði til, álitum heppilegra ,að fara hægt á stað og láta reynsluna skera úr. Hægt að hækka eða lækka síðar, ef ástæða verður til.

Að endingu vil jeg taka það fram, að þó að við höfum felt þetta inn í vörutollslögin, er það eigi gert í því skyni að villa mönnum sýn, heldur af því, að oss þótti það heppilegra.

Fleira mætti um þetta segja, en þetta læt jeg nægja í bráðina. Ef til vill verður ástæða til að minnast frekar á það síðar.