02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

39. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Háttv. síðasti ræðumaður hjelt því fram, að frv. þetta myndi spilla fyrir vöruvöndun í landinu og að Íslendingar vönduðu nú eigi vöru sína svo sem áður hafa þeir gert. Er þetta munnfleipur eitt og skrök, og alt gripið úr lausu lofti. Vöruvöndun hefir sífelt farið vaxandi j landinu, og er nú vart það kot til, að eigi framleiði betra smjör en hið danska herragarðssmjör, sem hjer hefir svo mjög verið rómað. Annars er það einkennilegt, hversu sumir menn hafa tamið sjer þá hugsun, að ekkert megi það vera hjer, sem útlendingum leyfist eigi að gína yfir, og að alt skuli vera hjer opið fyrir öllum. Þetta kemur þeim einkennilega fyrir sjónir, er ferðast hafa utanlands, t. d. í Noregi. Hvar sem maður ferðast þar, rekur maður sig alstaðar á auglýsinguna: „Köb norske varer“. Hjer sjest slíkt hvergi, og er það meðal annars vottur um óþjóðrækni Íslendinga. Jeg vil ekki beinlínis verndartolla, en óvist, að hægt sje að komast hjá þeim.