02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

39. mál, vörutollur

Jakob Möller:

Jeg tek í sama streng og háttv. samþingismaður minn (JB), og stóð jeg í rauninni upp til þess að þakka honum fyrir þá drengilegu vörn, sem hann hefir haldið hjer uppi fyrir frjálsri samkepni, og felst jeg fyllilega á rök þau, er hann taldi fyrir áhrifum hennar á vöruvöndunina.

Að öðru leyti er ekki ástæða fyrir mig að fara út í umræðurnar, fyrst gert er ráð fyrir, að frv. verði vísað til nefndar, sem jeg á sæti í. Aðeins vil jeg taka fram um eitt atriði, að hv. flm. (JS) tókst ekki að rjettlæta tillögu sína með því, að nóg væri framleitt af þessum vörum í landinu. En svo er, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JB) tók fram, að um sumar vörurnar er þannig ástatt, að engin ástæða er til áð vernda framleiðslu þeirra, með því að framleiðendurnir sýna engan áhuga. Skal jeg t. d. nefna egg. Yfirleitt geta menn framleitt þau án verulegs kostnaðar, og er það fyrir áhugaleysi eitt, að ekki er meira að því gert. Hins vegar lít jeg svo á, að þegar verndartollar leggjast á nauðsynjavöru, leiði aðeins ilt. af því. Þeir auka dýrtíðina í landinu og koma framleiðendum sjálfum í koll.