16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

39. mál, vörutollur

Eiríkur Einarsson:

Það eru tvö atriði í þessu máli, sem jeg vildi gera að umtalsefni. Hækkun vörutolls á vefnaðarvöru er jeg ekki beinlínis mótfallinn, en jeg álít, að stíga verði þetta spor með varfærni og jeg treysti mjer ekki til að greiða atkvæði með því, fyr en jeg hefi fengið upplýsingar um, hvernig horfir við um innlendan ullariðnað, hvort útlit sje fyrir, að hann verði bráðlega svo mikill, að klæðaþörf landsmanna sje borgið. Því ef svo skyldi ekki vera, er fyrirsjáanlegt, að þetta mundi auka dýrtíð í landinu, og það einkum meðal hinna fátækari í kaupstöðunum. Samkvæmt fyrirmælum síðasta þings var skipuð þriggja manna nefnd, til að athuga ullariðnaðinn. Hefir síðan verið hljótt um þetta. Óska jeg nú að fá upplýsingar um starf þessarar nefndar, og vona, að stjórnin gefi þær án sjerstakrar fyrirspurnar. En atkv. mitt um toll á vefnaðarvörum er háð því, hvernig ullariðnaðarmálið horfir við.

Hitt atriðið er í raun rjettri annar þáttur sama máls; á jeg þar við till. um aukinn toll á innfluttum skófatnaði. Er komin hreyfing á að hefjast handa í þessu efni og reyna til þess að vera sjer sjálfum nógur um skóefni, en enn þá getur þessu máli varla verið komið í svo gott horf, að jeg treysti mjer til þess að greiða atkvæði með tollhækkuninni. Einnig í þessum efnum vildi jeg sjá hverju fram vindur. Hefir Sláturfjelag Suðurlands nú forgöngu í sútunarmálinu. Er það ósk margra, að þingið styðji það vel í þessari nauðsynlegu sjálfsbjargarviðleitni. En varlegt er að tolla mjög skóefnin meðan við getum ekki veitt okkur sjálfir það, sem við þarf.