16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

39. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Brtt. hv. fjhn. á frv. snúast flestar um þær vörutegundir, sem stjfrv. hafði lagt til að verðtollur kæmi á, í stað þungatolls. Hefir. hún því tekið þá afstöðu að reyna ekki að afljetta vörutollinum, þar sem hann kemur verst við, og setja verðtoll í staðinn. Ástæða hennar er sú, að svo mikil vandkvæði sjeu á framkvæmdinni. Það er satt, að vandkvæði eru nokkur, en þó minni þar, sem aðeins er að ræða um verðtoll á takmörkuðum vörutegundum, heldur en ef um almennan verðtoll væri að ræða.

Eru vandkvæðin líka minni, þegar bæði þunga- og verðtollur eru á sömu vörutegund. Eftirlitið verður þá ljettara. Það er að vísu rjett, að þungatolli má koma svo fyrir, að rjettlátur sje, en þá verður að fara fram nákvæm vöruflokkun og setja upp heila toll-„tariff“, en þá verður þungatollurinn umsvifamikill.

Jeg vil skjóta hjer inn í viðvíkjandi heytollinum, að um hann finst mjer vera töluvert álitamál. Flestir aðrir tollliðirnir eru hugsaðir sem verndartollar, þannig, að þeir draga úr innflutningi vörunnar fremur en að vera tekjutollar. Um heytollinn er það að segja, að það geta komið fyrir þau tilfelli, að heyinnflutningur verði nauðsynlegur, t. d. í harðindum og samgönguleysi. En þá mætti komast fram hjá honum með bráðabirgðaráðstöfunum, þegar svo stendur á. Annars álít jeg, að heysalar, sem ekki framleiða hey, ættu helst að kaupa það innanlands; en heysala hjá bændum sjálfum ætti helst ekki að eiga sjer stað; og mjer er í barnsminni, að það voru verstu búslóðarnir, sem seldu hey, og efast jeg um, að rjett sje að vernda slíkt.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um verðtollinn, þá höfum við ekki verið að hugsa um það með þeim ýmsu frv., sem fyrir liggja, að afla frekari tekna sjerstaklega, heldur hitt, að tekjur lækkuðu ekki, og að það, sem inn kæmi og ynnist á einum lið, gæti komið í staðinn fyrir það, sem lækkaði á öðrum, svo að tekjurnar hjeldu sjer.

En ef á að fara að hreyfa við útflutningsgjöldum, sem jeg reyndar býst ekki við að þetta frv. gefi ástæðu til, þá álít jeg betra að færa þau eitthvað niður, en vil ekki láta fella þau alveg burtu. En ef það telst rjett, að áliti nefndarinnar, þá vil jeg víkja að því, hvaða kosti þetta fyrirkomulag hefir viðvíkjandi allri „statistik“, þar eð maður veit samstundis um útflutning vara, hverju hann nemur, þó að það sje auðvitað ekkert aðalatriði.