20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

39. mál, vörutollur

Björn Hallsson:

það er orðið nokkuð langt síðan þetta mál var á dagskrá síðast. Jeg var þá víst einn þeirra manna, sem höfðu kvatt sjer hljóðs, og vil því fara nokkrum orðum um frv. og þær brtt., er fram hafa komið, þótt jeg á hinn bóginn væri fús um daginn að falla frá orðinu, ef hinir, sem kvatt höfðu sjer hljóðs, gerðu slíkt hið sama; en af samkomulagi varð ekki, frekar en vant er, þegar gera á tilraun til þess að stytta umræður í þessari hv. deild.

Hvað sjálfu frv. viðvíkur, þá verð jeg að segja það, að jeg er mjög hlyntur þeirri stefnu, sem þar kemur fram. Tel rjett stefnt að setja verndartolla á, þannig, að hækka tollana að mun á þeim tegundum, sem vernda á, og jafnframt óþörfum vörum, sem ættu ekki að sjást í landinu.

Okkar efnum er svo farið, að þjóðinni er það lífsnauðsyn að líta alvarlega kringum sig, ef hún á ekki að fljóta sofandi að feigðarósi. Þjóðir girða sig sem mest með allskonar verndartollum nú á síðustu tímum; þarf ekki annað en minna á kjöttollinn í Noregi og ullartollinn í Ameríku, sem vjer höfum þegar fengið að kenna á allóþyrmilega. Þannig mun tollhækkunin á ull okkar í Ameríku nema eins miklu og verði ullarinnar undanfarið. Virðist því sá markaður tapaður að svo komnu. Ef við gerum ekkert til þess að vega upp á móti þessu, gæti svo farið, að það kæmi oss illa í koll, og tími kominn til að athuga það. Það er því sýnilegt, að það er nauðsynlegt að taka hjer upp verndartolla í einhverri mynd, en þá verður líka að sjá við því, að þeir valdi sjálfum oss tjóni, og má því ekki setja verndartolla á aðrar vörur en þær, sem vjer getum framleitt nóg af í landinu sjálfu, eða þá það, sem er alveg óþarft.

Það eru aðallega tveir liðir á þingskjali 123, sem jeg vil dálítið athuga. Er annar liðurinn raunar ekki stór póstur, nefnilega tollur á heyi, sem er settur 6 kr. á hver 100 kg., og upplýstist það við síðustu umræðu, að innflutt hey hefir numið c. 1500 kr. á ári. Það kann að virðast óviðeigandi og óeðlilegt að flytja hey inn í landið, þar sem búnaður og grasrækt er annar aðalatvinnuvegurinn, en jeg vil samt láta það vera undanþegið tolli. Jeg tel ekki rjett að íþyngja kaupstaðabúum með það að fá mjólk handa börnum sínum. Gengur oft illa fyrir þeim að afla heyja handa kúm. Er því sú leið stundum farin, að fá útlent hey. Það er oft blátt áfram ekki hægt að fá keypt hey í kringum kaupstaðina, og bændur þar telja plágu fyrir sig heyvandræðin í kaupstöðunum seinni part vetrar, af því þeir mega ekki missa heyin. Hins vegar dugar ekki eingöngu kraftfóður handa gripunum, heldur þurfa þeir heysins líka með, ef þeir eiga að halda lífi. Jeg þekki dæmi þess, að í sumum kauptúnum austanlands, eins og t. d. Seyðisfirði, að það er miklum vandkvæðum bundið að afla heyja úr sveitum, og hefir oft orðið lið að því að fá útlent hey, sem hefir auk þess reynst oft ódýrara en t. d. hey ofan af Hjeraði eða fjörðum í kring. Jeg verð því, eins og sakir standa, að leggja á móti þessum tolli, enda hefir það sýnt sig, þó hart sje að þurfa að segja það, að okkur skortir nálega árlega fóður, þrátt fyrir það, að það er annar aðalatvinnuvegur okkar að framleiða gras. Úr því svo er í raun og veru, þá finst mjer ekki rjett að leggja háan toll á aðkeypt hey. Að vísu játa jeg það, að aðflutt hey bjargar okkur ekki í harðindum, heldur kraftfóður, en í einstaka tilfellum getur útlenda heyið hjálpað mönnum, og þá vil jeg ekki leggja þar stein í götuna, úr því innlenda framleiðslan dugar ekki á annað borð. Hitt viðurkenni jeg fyllilega, að „principielt“ væri tollurinn í alla staði rjettur, því að við ættum að geta framleitt nóg gras.

Hinn liðurinn, sem jeg hefi ástæðu til að minnast á, er tollhækkun á vefnaðarvöru og fatnaði. En það er sá liður á landhagsskýrslunum, sem mjer er verst við; nam hann árið 1919 um 9 milj. króna, en þá fluttum við ull út fyrir 7 miljónir. Þetta er —vægast sagt mjög athugaverð stefna, þegar þess er gætt, að vjer flytjum út mestmegnis alla okkar ull og seljum hana mjög lágu verði. En enn er ekki svo komið fyrir okkur, að vjer getum lagt strangar hömlur á þetta, og erlendur fatnaður getur verið okkur nauðsynlegur á meðan við framleiðum ekki nóg af fatnaði sjálfir. En á meðan verksmiðjunum fjölgar ekki svo í landinu, að þær fullnægi þörfinni, er hæpið að setja háan toll á þær vörur. Hann er settur í till. fjhn. fjórfalt hærri, þó liðlega, en verið hefir, eða úr 18 au. pr. kg. í 75 aura, og er aðgætandi, hvort hann mundi ekki verða til þess, að þær innlendu verksmiðjur, sem vjer nú höfum, okruðu enn þá meira á sinni vinnu en verið hefir. Aftur eru aðrar óþarfavörur, svo sem silkifatnaður og fleira rusl, sem gjarnan mætti missa sig, og því ekki nema æskilegt, að þær væru tollaðar hátt. Jeg gæti því fylgt tollhækkun á vefnaðarvörum, en finst þetta nokkuð mikið í einu. Það ýtir undir menn að framleiða meira sjálfir að hækka toll á þessum vörum, en á meðan við erum ekki lengra komnir en nú er í iðnaði, verðum við að fara þar gætilega.

Það, sem vjer þurfum að gera, er að koma klæðaverksmiðjum okkar í gott horf og efla heimilisiðnað, enda mun tilgangurinn vera sá, með þessum tolli, að flýta fyrir því. Fyr en svo er komið, finst mjer ekki gerlegt að hækka svo stórkostlega tollinn á útlendum fatnaði, og býst því ekki við að greiða þessum lið atkv. mitt, þótt jeg, eins og jeg tók fram áður, sje að öllu leyti hlyntur þeirri stefnu, sem hjer er gengið inn á. Er kostur á að koma fram með brtt. um þetta við 3. umr.

Fleira finn jeg ekki ástæðu til að taka fram, og greiði hiklaust atkv. með málinu til 3. umr. því að jeg er að öðru leyti en þessum 2 liðum samþykkur frv., og legg ekki svo mikið kapp á að fá þeim breytt, að jeg greiði fyrir það atkvæði á móti frv.