22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg ætla að leyfa mjer að leiðrjetta það, sem háttv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði um eitt bannlagabrotið hjer, sem sje hið svonefnda „Blöndahlsmál.“ Það kom fyrir eftir að jeg varð bæjarfógeti, svo mjer er sagan kunn. Saga málsins er í fám orðum sú, að Blöndahl var dæmdur í hjeraði fyrir brot á bannlögunum, ásamt tveim mönnum öðrum, en landsyfirrjettur sýknaði Blöndahl. Var þetta áður en hæstirjettur var settur á stofn innanlands, og þurfti, ef áfrýja skyldi dómnum, að skjóta málinu til hæstarjettar í Danmörku. Það hygg jeg vera ástæðuna fyrir því, að því var ekki áfrýjað, því að það mun hafa þótt óviðkunnanlegt að senda slíkt mál til hæstarjettar í öðru landi. Jeg hefi kveðið upp marga dóma í málum út af bannlagabrotum. Hefir nokkrum þeirra verið áfrýjað, en enginn verið mildaður. Hafi þeim verið breytt, þá hefir það verið í gagnstæða átt.