14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

28. mál, vörutollur

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Þó að fáum muni geðjast að því, að auknar sjeu álögur á þjóðina, hefir nefndin ekki sjeð sjer fært annað en að fallast á till. Nd. um að hækka vörutollinn. Þótti henni rjettast að dreifa hækkuninni sem mest milli hinna ýmsu flokka. Eins og fram er tekið í nefndarálitinu, er aðeins nokkrum nýjum vörutegundum skotið inn í texta núgildandi laga um þessi efni. Annars er röðinni á vöruupptalningunni haldið þeirri sömu. Samt er t. d. nýtt grænmeti sett í sama flokk og kornvörur og jarðepli. Einnig höfum við sett umbúðir, tunnustafi og tunnusviga í þennan flokk, en það var áður í 2. flokki. Við þetta bætist í sama flokki vörur, sem hafðar eru til innlends iðnaðar, svo sem sútunar, kertagerðar, blekgerðar og smjörlíkisgerðar. Er það sett í svo ódýran flokk, til þess að ljetta undir með iðnrekendum, sem eiga fult í fangi með að standast straum af samkepninni við hinn útlenda iðnað, og til þess að gera mönnum heldur hægara með að reka nýjar iðnaðargreinir. Tilfærslurnar í þessum flokki miða því að því að efla innlendan iðnað og framleiðslu, og því hefir nefndin ekki viljað hækka vörutollinn þar nema um 1/4 eða upp í 40 aura af hverjum 50 kg. Við 2. flokk hefir nefndin gert minni breytingar og haldið upptalningunni nákvæmlega eins og lögin leggja fyrir. Aftan við hann er bætt nýjum vörutegundum úr 7. flokki, t. d. þvottasóda. Það hafa heyrst umkvartanir um það, að hann væri hafður í of dýrum flokki, enda er verðið á honum svo lítið, að tollurinn hefir borið það ofurliði. Svo er bætt við nokkrum vjelum, sem voru í 7. flokki og eru dýrar og þungar í sjer; var það gert meðfram af því, að það er tiltölulega mjög lítið keypt af þeim inn í landið og þá helst af efnalitlum mönnum, sem væri ekki hægt að greiða háan toll. Á 3. flokki, sem er vefnaðarvöruflokkurinn gamli, hefir nefndin í Nd. hækkað tollinn upp í 5 kr. pr. 10 kg., en við höfum ekki sjeð okkur fært að hækka hann meira en upp í 3,50 kr. pr. 10 kg. Þá kemur nýr liður, 4. liður, sem settur er eftir till. Nd., um að allskonar skófatnaður sje ekki hækkaður úr því sem er nú, eða 1,80 kr. pr. 10 kg. Nefndin hefir þó þokað vörutollinum á þessum lið upp í 2,00 kr.; en það gerir mjög lítinn mismun. Svo hefir hv. Nd. lagt til, að lagður yrði mjög hár tollur á kjöt, fisk og ávexti, eða 5 kr. pr. 10 kg., en nefndin hefir lækkað hann niður í 3 kr. og slept úr flokknum eplum og ávaxtamauki, sem telja má nauðsynjavöru fyrir alla, hvernig sem efnum þeirra er háttað, sjerstaklega fyrir sjúklinga. Sjötti flokkur, sem var 4. flokkur, er óbreyttur og sömuleiðis 7. flokkur. Nefndin leggur til að 8. flokkur verði aftur á móti hækkaður úr 1 kr. upp í 1,50 kr. og 9. flokkur úr 60 aur. pr. 10 kg. upp í 80 aura. Að öðru leyti má telja 1. gr. óbreytta frá því, sem hún er nú. Nefndin leggur loks til, að 3. gr. vörutollslaganna sje feld burt fyrir þá sök, að ill reynsla hefir fengist fyrir því, hvernig ákvæði hennar hafa gefist.

Jeg skal geta dálítillar ónákvæmni í nefndarálitinu á einum stað, þar sem minst er á vörutoll af steinolíu, að hann muni nema 131700 kr. miðað við innflutning á steinolíu árið 1919. Það er að vísu rjett, en í lögum um einkasölu ríkisins á steinolíu er gert ráð fyrir, að helmingur ágóðans renni í varasjóð, svo að aðeins helmingurinn getur reiknast til árstekna ríkissjóðs. Viðvíkjandi því, sem menn fýsir sjálfsagt einna helst að vita, sem sje, hvað vörutollurinn muni hlaupa mikið fram, þá er ekki hægt að segja neitt með vissu um það, en eftir því, sem nefndin hefir komist næst, má gera ráð fyrir, að það verði ekki minna en 275 þús. kr. Annars eru þessar tolltekjur sæmilega trygðar, ef hægt er að reka, verslunina stórhindranalaust á komandi árum. Aftur er þýðingarlítið að tolla mikið ódýrar vörur, þótt mikið sjeu kannske keyptar inn í landið, því að það hefir sömu áhrif og aðflutningsbann á þeim, en ekki tollur.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta, fyr en ef jeg fæ tækifæri til þess síðar.