24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

141. mál, skoðun á síld

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Mjer finst ræða hv. þm. Ak. (MK) fult eins hátignarleg og flutningur minn á þessu máli inn í þingið. Háttv. þm. kvað málið flutt svo sem það væri meiri háttar mál, en mjer finst hann engu síður hafa tekið svo í það, sem hann telji það ekkert smámál.

Hv. þm. (MK) sagði, að vel mætti fá háar tölur með því að taka dýrtíðaruppbótina með. Átti þá að sleppa því, að þessum manni er borguð sjálfsögð uppbót lögum samkvæmt Jeg tel jafnsjálfsagt að geta um dýrtíðaruppbótina sem launin. Hv. þm. Ak. (MK) getur ekki vitað, hve lengi þessi uppbót verður greidd. Að vísu gilda lögin einungis til 1925, og verður því að sjálfsögðu rætt um hana á næsta þingi. En engin sönnun er fyrir því, að hún hverfi þá með öllu, mætti alveg eins búast við, að hún yrði þá hækkuð.

Þá sagði hv. þm. (MK) enn fremur, að enginn gæti sagt fyrir, hvar síldin kæmi að landi. Það er að vísu rjett. En jeg gat um 3–4 ára reynslu, hve mikið hefði veiðst á Austfjörðum, og hvað matið á þeirri síld hefði kostað ríkissjóð. Síðastliðin 3 ár hefir það kostað að meðaltali 6 kr. á hverja tunnu. Þegar við þetta bætist, að starfið er svo umfangslítið, að enginn undirsíldarmatsmaður á Norðurlandi mun hafa jafnlítið starf, er ekki óeðlilegt, þó að þessi landskiki yrði settur undir umsjón yfirsíldarmatsmannsins á Akureyri.

Hv. þm. (MK) taldi upphæð þessa smávægilega. Að vísu eru launin ekki há, þegar miðað er við laun háttsettra embættismanna. En í samanburði við starfið mun þessum manni greitt einna hæst kaup af flestum starfsmönnum landsins. Hv. þm. (MK) bar saman starf sýslumanna og síldarmatsmanna. Jeg kann engin deili á þeim samanburði, og læt hv. þm. hann eftir.

Það getur verið tilfinningamál, hvort rjett sje að svifta þennan mann starfi sínu á gamals aldri. Jeg skal játa, að mjer var ekki kunnugt um aldur þessa manns; jeg hugði hann vera sæmilega vinnufæran og að hann gæti bjargað sjer á handafla sínum eins og flestir aðrir menn, og það fje, sem honum væri greitt, bæri þá ekki að skoða eingöngu sem fátækrastyrk.

Þá taldi hv. þm. (MK) umdæmi yfirsíldarmatsmanna svo stór, að ekki mætti stækka þau, og mjer fanst hann jafnvel ganga svo langt, að helst þyrfti að vera yfirsíldarmatsmaður á hverjum stað, er síld væri skipað út til útflutnings. Ef svo ætti að vera, hygg jeg, að mörgum mönnum mundi þykja nóg um og telji hv. þm. Ak. (MK) hafa fullfeitt á stykkinu, ef launa á yfirsíldarmatsmann á hverjum útflutningsstað. (MK: Þetta er útúrsnúningur). Það var ekki unt að draga aðra ályktun af orðum hv. þm. en að yfirsíldarmatsmaður þyrfti helst að vera viðstaddur á hverjum stað, er útskipun síldar færi fram. Annars get jeg skýrt frá því, að jeg átti tal um þetta við hæstv. atvrh. (KIJ), áður en jeg flutti frv.; kvaðst hann ekki sjá, að nein þörf væri á yfirsíldarmatsmanni á Austfjörðum og að hann teldi sjálfsagt að bera frv. fram.