24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

141. mál, skoðun á síld

Magnús Kristjánsson:

Hv. frsm. (StSt) virðist þetta mikið kappsmál. Jeg skal ekkert um það segja, hvort honum muni verða að þessari innilegu ósk sinni, að frv. verði samþykt, en fremur tel jeg það ólíklegt.

Jeg vildi leyfa mjer að leiðrjetta mishermi hjá hv. frsm. (StSt). Hann hafði það eftir mjer, að jeg teldi nauðsynlegt að hafa yfirsíldarmatsmann á hverjum stað, sem síld væri flutt út frá. Þetta sagði jeg aldrei. Þetta er því annaðhvort vísvitandi útúrsnúningur eða misskilningur, eg get jeg betur trúað, að svo sje. Jeg vona, að hv. frsm. (StSt) sje ljóst, hve gagngerð breyting hefir orðið á þessu starfi síðan lögin voru sett, og að eftir því, sem hver yfirsíldarmatsmaður hefir stærra svæði til yfirsóknar, því minni líkur eru til, að starf hans komi að tilætluðum notum. Það er að vísu satt, að undirmatsmenn framkvæma víða seinni skoðunina á síldinni, því að yfirmatsmenn eru of fáir, en jeg tel nauðsynlegt, að yfirmatsmenn komi við og við á þá staði, til þess að líta eftir, hvernig sú skoðun er framkvæmd. Og ef þeir rækja vel þetta starf sitt, hygg jeg að aukinn ferðakostnaður muni nálgast þá upphæð, sem hjer er gert ráð fyrir að spara.

Þá verður og að líta á annað. Jeg er ekki viss um, að yfirmatsmaðurinn á Akureyri vilji bæta þessu starfi við sig, nema laun hans verði hækkuð jafnframt. Auk þess kemur varla annað til mála en að yfirmatsmaðurinn á Austurlandi fái að halda launum sínum óskertum til dauðadags. Verður því nokkuð vafasamt að þessi sparnaðarviðleitni komi að haldi, fyrst um sinn. En þegar hún ætti að koma til framkvæmda, mundi það koma í ljós, að þetta fyrirkomulag yrði alveg óhafandi.

Þetta mál er ekki svo stórvægilegt, að rjett sje að eyða meiri tíma í það. Vona jeg að hv. þm. meti engu síður þær upplýsingar, er sýna, að þetta er fljótfærnislega ráðið, og hrapi ekki að því að breyta lögunum.