24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

141. mál, skoðun á síld

Magnús Kristjánsson:

Vegna þess, að Hv. frsm. (StSt) virðist eiga mjög erfitt með að taka sönsun, verð jeg að fá að gera stutta athugasemd. Jeg hefi ekki vanist því af hv. þm. (StSt), en í þessu máti er það svo. Það er orðið svo mikið kappsmál fyrir honum, að hann neyðist til að gera mjer upp orð, sem jeg hefi aldrei talað Raunar kannaðist hann við að mestu leyti, að hann hafi ekki haft rjett eftir.

Jeg vil þá skýra orð mín betur. Jeg átti við, að þótt að vísu væri nauðsynlegt, að yfirmatsmenn verði stundum að fela undirmatsmönnum að framkvæma störf sín, þá væri það ekki heppilegt; menn verða að vera vissir um. að þeir sjeu starfi sínu vaxnir. Og þegar ágreiningur kemur upp milli útflytjanda og undirmatsmanns, er oft óhjákvæmilegt að yfirmatsmaður ferðist til þess staðar og skeri úr slíkum ágreiningi, sem oft getur komið fyrir. Sjá allir, hve óþægilegt það er, ef yfirmatsmaður þarf að ferðast margar dagleiðir til þess að rannsaka eitthvert mál. Jeg tel yfirmatsmannastöðurnar gagnslausar, ef þeir geta ekki haft eftirlit með því, hvernig undirmenn þeirra rækja störf sín.