30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

141. mál, skoðun á síld

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Aðalástæða hv. þm. Ak. (MK) til þess að berjast gegn frv. er sú, að hjer sje gerð tilraun til að spilla fyrir vöruvöndun þar fyrir austan. Jeg bið menn að gæta vel að því, að það eru alls ekki yfirmatsmennirnir eingöngu, sem gæta að, hvernig síldin er verkuð. Það er aðallega starf undirmatsmannanna. Jeg get fullvissað menn um, að undirmatsmenn þurfa ekki að vera færri, þeir geta engu að síður orðið fleiri eftir fyrirkomulagi því, sem farið er fram á í frv., ef þurfa þykir. Svo að þessi ástæða er harla ljettvæg.

Mjer finst það vaka fyrir háttv. þm. Dala. (BJ), að hjer sje verið að drepa einn góðan náunga á Austurlandi. Hann virðist vilja halda því fram, að ríkissjóður eigi að halda áfram að greiða þessum manni laun, hvort sem starf hans er nauðsynlegt eða ekki. Jeg þekki þennan mann ekki neitt, og kemur því ekki til hugar að ýfast við honum persónulega, en að ríkissjóður ali hann árum saman, ríkinu og almenningi með öllu að þarflausu, tel jeg fjarstæðu.

Þá bar hv. þm. Ak. (MK) það á mig, að jeg hafi gefið rangar upplýsingar um það, að stjórnin væri frv. ekki mótfallin, heldur mundi styðja það. Kvaðst hann ekki taka mark á því, þó jeg hefði minst á þetta á hlaupum við hæstv. atvrh. (KIJ). Þegar jeg var að semja frv., kom hæstv. atvrh. (KIJ) til mín; skýrði jeg honum frá málavöxtum, og kvaðst hann ekki sjá neina ástæðu til að halda þessu embætti og ljet í ljós fult samþykki sitt til frv. Frá þessu verð jeg að skýra, þar sem jeg hefi verið borinn sökum um, að jeg hafi ekki skýrt rjett frá, sem er rangt með öllu.

Hv. 1 þm. N.-M. (ÞorstJ) og hv. þm. Ak. (MK) kváðu það aðeins síðustu árin, eða jafnvel aðeins síðastliðið ár, sem litil síldveiði hafi verið fyrir Austfjörðum, og því hafi tölur mínar verið villandi. Þetta er ekki rjett; jeg tók meðaltal af 3 síðustu árum. Enda hygg jeg, að mörg ár sjeu síðan nokkuð aflaðist að marki af síld á Austfjörðum, því síðan handnótaveiðin lagðist niður, hefir aflinn verið mjög lítill og óverulegur.