30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

141. mál, skoðun á síld

Bjarni Jónsson:

Háttv. frsm. (StSt) var óánægður með það, að jeg skyldi ekki telja það þingmál, þó að hann vildi ná kaupi af einum karli á Austfjörðum. Þetta hlýtur þó að vera tilgangur hans, þar sem hann vill hafa marga aðra matsmenn austur þar. Hv. frsm. (StSt) heldur því fram, að ríkinu sje ekki skylt að ala menn, sem hafa lítið starf, sem komast mætti af án. Jeg vil svara því til, að ríkissjóður á ekki að vera langskitnasti vinnuveitandinn í landinu, því að það er ekki venja manna að reka í brott hjú sín, þó að þeir hafi lítið að gera handa þeim í bili. En þennan mann vantar ekki verk, því að þarna veiðist nógu mikil síld til þess að spilla fyrir öllum síldarmarkaði vorum, ef ekki er nægilegt eftirlit með verkun hennar. Með þeim aðferðum, sem nú eru hafðar við síldveiði, getur enginn sagt fyrir, hve nær veiðin glæðist aftur fyrir Austurlandi. Það er líka meira og minna ýkt, sem sagt er um síldarleysið þar. (StSt: Það er eftir skýrslum hagstofunnar).

Mig varðar ekkert um þær skýrslur, því það hefir sennilega ekki verið leitað í sjónum fyrir austan land. Háttv. þm. (StSt) verður þá að koma með ferðaáætlun fyrir síldina og láta samþykkja hana á þingi, fyrst hann telur óþarft að, hafa síldarmatsmann í fjórðungi, þar sem síldveiði er stunduð.

hv. þm. (StSt) gangi annað til en sparnaður, sýnir afstaða hans til frv. um mentaskóla á Norðurlandi, sem hafa mundi í för með sjer stofnun 5 nýrra embætta. Jeg efast ekki um, að háttv. þm. mundi heldur ekki sjá eftir landsfje til þess að stofna háskóla á Akureyri. En jeg skil hvaðan þetta er runnið. Það má ekki heita svo, að yfirsíldarmatsmaður sje á Austfjörðum. Hann verður að vera undir yfirmatsmanninum á Akureyri. Það er keisaradæmið Norðurland, með höfuðstað á Akureyri, sem hv. þm. (StSt) er að berjast fyrir. Annað getur ekki legið að baki þessu frv., og vil jeg því endurtaka, að þetta er á borð við óþarfa málsýfingu. Frv. er svo úr garði gert, að það er eiginlega of vel farið með það að drepa það með rökstuddri dagskrá.