30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

141. mál, skoðun á síld

Bjarni Jónsson:

Háttv. þm. Borgf. (PO) fjekk sparnaðarflog rjett áðan, og munu það vera eftirstöðvar af þessum sjúkdómi hans í fyrra. Var ekki að kynja, þótt hann ljeti stórt um sparnaðarviðleitni sína þá. Eins og menn ef til vill muna, var þá aðeins um eina sparnaðartilraun að ræða. Það var, þegar átti að losa mig við kennarastarf mitt. Jeg hefði ekki átt neinn rjett til skaðabóta, og hefði þetta því orðið sparnaður. Nú hefir þessi bjargvættur ríkissjóðsins og nokkrir aðrir hv. þm. þá fyrirætlun með höndum, að svifta þennan gamla síldarmatsmann starfi sínu. Er líklegt, að niðurstaða þeirra bjargráða verði sú, að meira fje þurfi til að greiða í aukaþóknun og ferðakostnað síldarmatsmannsins á Akureyri heldur en sem nemur launum þessa gamla manns. Munu þessir hv. þm. og einkum gera þetta í því skyni að geta svo í sumar sagt kjósendum sínum, að þarna hafi þeir fækkað embættum. Hins þurfa þeir ekki að geta, að kostnaðurinn hafi aukist um leið.

Það er annars hálfundarlegt, að ætlast til þess, að sami maður hafi eftirlit með síldarmati alt frá Horni og austur að Gerpi. Ætti hverjum heilvita manni, sem nokkuð þekkir til þess starfs, að vera það ljóst, að þetta yrði aðeins til að ónýta matið. Væri þá heldur rjettara að afnema það með öllu.

Það er skaði, úr því þessir hv. þm. vildu nú endilega vinna sjer eitthvað til ágætis, að þeir skyldu taka svo öfuga stefnu. Þeim hefði verið sæmra að koma fram með frv. um að auka og bæta eftirlitið með síldarmatinu, því það mun engum blöðum um það að fletta, að það hefir til þessa verið í skammarlegu ólagi.