30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

141. mál, skoðun á síld

Pjetur Ottesen:

Háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) kvað það með öllu rangt sagt hjá mjer, að hann og hv. þm. Dala. (BJ) hefðu verið samherjar í fyrra í baráttunni gegn sparnaðartillögum um sameining og niðurlagning embætta. Er háttv. þm. búinn að gleyma frv. um sameining á störfum hæstarjettardómenda og lagakenslunnar við háskólann, og frumvörpunum um niðurlagning 3 embætta við háskólann? Ekki man jeg betur en að hinir hv. þm. (ÞorstJ og BJ) berðust samhliða gegn þeim málum, og þeir munu hafa staðið saman um að koma fleiri sparnaðartillögum fyrir kattarnef, þó jeg muni ekki að nafngreina þær nú í svipinn. Mun hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) hafa tekið munninn heldur fullan, er hann kvað ummæli mín með öllu röng. (BJ: En þarna var ekki um sparnað að ræða). Að nokkru leyti kom sparnaðurinn strax, en að sumu leyti með tíð og tíma; það var lagður grundvöllur til sparnaðar, en ef aldrei á að byrja að spara, þá sparast heldur aldrei neitt. Er nú auðsætt, að búið er með hraðvaxandi útgjöldum að binda þjóðinni þyngri bagga en gjaldþol hennar fær undir risið. Þetta er að verða æ skýrara og skýrara. Þær 8 miljónir, sem þjóðin verður árlega að greiða í sköttum og tollum til ríkissjóðs, gera lítið betur en hrökkva til að halda uppi embættabákninu og standast árlegar greiðslur af skuldum ríkissjóðs. Vegabætur og aðrar verklegar framkvæmdir, svo og nauðsynleg fjárframlög til eflingar atvinnuvegum og framleiðslunni, verður að mestu að sitja á hakanum ár eftir ár, sökum þess, að þjóðin hefir bundið sjer alt of þunga bagga með þessu yfirgripsmikla embættabákni, sem auk þess er að draga hana niður í botnlaust skuldafen.

Að því rekur, að eigi verður lengur hjá því komist, að það verður að fara að spara, og það sem um munar, og þá er betra að hafa tekið ráð sitt í tíma, svo ekki leiði til þess að grípa þurfi til örþrifaráða, og því betur, sem löggjafarvaldið þekkir fyr sinn vitjunartíma og sjer og skilur nauðsynina á því, að spara fje ríkissjóðsins. (BJ: Háttv. þm. er tekinn að tala eins og Reykvískur bolsevikki). Nei, mjer er enginn bolsevismi í hug, það fer fjarri því. (BJ: Því er þá hv. þm. að hóta með bolsevisma). Jeg er alls ekki að hóta neinu, en það má hv. þm. Dala. (BJ) vita, að með engu móti er betur hægt að greiða götu bolsevismans, þessarar háskalegu niðurrifs- og byltingastefnu, en að fara svo óvarlega með fje ríkissjóðs, leggja svo þunga skatta á þjóðina, að hún vanmegnist að rísa undir þeim og verði efnalega ósjálfstæð.

Þá hefir því verið haldið fram, að ekki mundi sparast neitt við það að leggja niður þetta embætti. Bar háttv. þm. Dala. (BJ) því við, að ferðakostnaður yfirsíldarmatsmannsins á Akureyri austur á land myndi jeta upp sparnaðinn og meira en það. En það er engin ástæða til að ætla að þeirra ferða þyrfti með. Undirmatsmaður sá, sem þarna væri settur, mundi að sjálfsögðu geta int þetta starf af hendi svo vel og tryggilega, eftir þeim reglum, sem yfirmatsmaðurinn hefir sett honum að fara eftir. Er þessu svo háttað á síldarstöðvunum norður á Ströndum. (BJ: Hefir ekki yfirmatsmaðurinn yfirumsjón með síldarmatinu á Ströndum?). Jú, en hann lætur undirmatsmennina þar meta síldina í sínu umboði. (BJ: Þá eru undirmatsmennirnir í rauninni yfirmatsmenn). Jeg vildi leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort það er jeg eða háttv. þm. Dala. (BJ), sem á að hafa orðið. Annars vona jeg, að þetta mál sje nú orðið svo skýrt fyrir hv. þdm., að þeir eigi orðið hægt með að fara að greiða atkvæði um það, og vænti jeg, að úrslitin verði þau, að það nái fram að ganga.

Hæstv. atvrh. (KIJ), sem hjer er ekki viðstaddur nú, hefir töluvert verið dreginn inn í umræðurnar, og það er engu líkara en að það sje í því skyni gert að gera hann dálítið tortryggilegan, Háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) heldur því fram, að hann hafi við hann tjáð sig frv. alveg fylgjandi og að það væri sjálfsagt að samþykkja það, en þm. Ak. (MK), og að jeg held 2. þm Reykv. (JB) líka, segja, að ráðherrann hafi haldið fram því gagnstæða við sig. Það er dálítið skringilegt að heyra þessa hv. þm., sem allir eru stuðningsmenn hans og stjórnarinnar, vera á þennan hátt að togast á um ráðherrann, og ætti jeg ekki, sem er í andstöðu við stjórnina, og skal ekki heldur gera það, að spilla þeirri ánægju, sem þeir hafa af þessari togstreitu.