22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) er dauður, og er því sjálfsagt að reyna að forðast deilumál við hann, nema óhjákvæmilegt sje. Þó vil jeg benda á, að í hans löngu ræðu kom ekkert það fram gegn útreikninginum, sem ástæða er að taka til greina. Í nefnd þeirri, sem útreikninginn gerði, sátu 12 menn, og þar var aðeins 1 maður, sem ekki aðhyltist reikninginn algerlega. En hjá háttv. þm. (JJ) kom ekki eitt einasta orð fram til að hnekkja útreikninginum. Ekki eitt. Í stað þess skrafaði hann um skeikular ályktanir manna, eins og það væri ekki hlutur, sem allir vissu. Það var sannkölluð neyðarvörn. Hann reyndi ekki einu sinni að styðjast við útreikning þessa 1 nefndarmanns, sem gerði tapið minna. En það er auðvelt að sýna fram á, hvernig á því stóð. Hann reiknaði pesetann 72 aura, í stað 115 aura, og hann taldi engan annan fisk með en þann, sem flyst beint til Spánar. Það var því ekki undarlegt, þó að reikningurinn yrði dálítið skrítinn. En háttv. þm. (JJ) kom ekki með neitt í staðinn. sýndi enga viðleitni í þá átt. Og það var undarlegt að fara að veitast að okkur, sem hann telur pólitíska andstæðinga sína, með allskonar skrafi, sem ekkert kemur við þessu máli, eftir að hafa ekki fengið einn einasta mann úr sínum flokki til þess að fallast á skoðanir sínar. En þeir verða að taka stóryrði háttv. þm. (JJ) til sín eins og við hinir. Það er engin röksemd í þessu máli, að fiskur sje nú í lágu verði, þrátt fyrir samningana við Spánverja. Væri það kanske lækning við því að fella frumvarpið, svo það yrði enn þá lægra? Er það ekki einmitt sönnun þess, að frv. verði að samþykkja? Þá er skrafið um, að hægt hefði verið að komast að betri kjörum við Spánverja. En það er út í loftið sagt. Um það leyti, sem við vorum að semja, við Spánverja, báðu Finnar þá að semja við sig, en þessari beiðni var neitað. Og halda menn, að niðurstaðan hefði orðið önnur hjá okkur, ef við hefðum ekki gengið að samningunum ?

Þá vil jeg láta háttv. þm. (JJ) vita, að jeg læt mjer það liggja í ljettu rúmi, þó að hann sje með glósur um það, að jeg sje vitgrannur. Jeg hefi aldrei miklast af gáfum mínum. En þó að hann sje sjálfur gáfaður maður, þá eru gáfur hans sýnilega með þeim annmörkum og takmörkunum, að jeg verð að segja honum, að jeg vildi ekki skifta.