22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Magnússon:

Það eru aðeins örfá orð. Jeg mundi ekki áðan með vissu, hvernig hafði legið í Blöndahlsmálinu. Jeg veit það nú, að það hafði komið til tals í þinginu og beint hafði verið fyrirspurn til mín viðvíkjandi því. Jeg svaraði henni svo, að jeg hefði ekki viljað vísa málinu til erlends dómstóls, en komið gæti til mála að vísa því til hins íslenska hæstarjettar, er þá átti að byrja störf sín eftir lítinn tíma. En ekki varð samt af því, af þeim ástæðum, er jeg fyr hefi talið.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) var aftur að minnast á kennara mentaskólans, sem hefðu ill áhrif á nemendurna, lærisveina sína, með því að æsa þá gegn bannlögunum. eða eitthvað í þá átt. Jeg held, að háttv. þm. (JJ) geri ekki nægilegan mun á banni og bindindi eða hófsemi. Jeg held ekki, að kennarar hafi haft ill áhrif á lærisveina sína. Að þessu leyti má segja, að verkin beri merkin. Jeg er ekki mjög kunnugur stúdentalífi hjer, en jeg hygg, að stúdentar sjeu yfirleitt reglusamir, og það frekar en áður hefir verið, og jeg veit, að stúdentalíf er með miklum blóma nú.

Þá eru dómararnir. Þó að þeim sje bannað að sitja á þingi, þá er engin ástæða til að amast við því, að þeir láti skoðanir sínar í ljósi um almenn málefni.

Þá var háttv. þm. (JJ) að tala um mótmæli. Jeg sagði ekki, að þau hefðu engin verið, en jeg sagði það, sem rjett var, að ekki hefðu komið fram nein veruleg mótmæli, og jeg veit, að flestir góðir og skynsamir bannmenn sjá það, að við urðum að hlíta þessu.