24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

84. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Jeg tók fram snemma á þessu þingi, er minst var á þetta mál, að jeg vil á allan hátt styðja að því, að það komist í gott horf.

Stjórnin vill ekkert heldur, en að það verði ítarlega athugað. Enginn starfsmaður við áfengisverslunina er bundinn með samningi, nema forstjórinn, sem er ráðinn til þriggja ára, og er nú því hægt að breyta þessu fyrirkomulagi öllu, eins og þinginu sýnist.

Háttv. flm. frv. (SvÓ) talaði um, að laun starfsmannanna við áfengisverslunina væru nú 85 til 100 þúsund, en mig minnir — því miður hefi jeg ekki hjá mjer ágrip yfir kostnaðinn — að laun starfsmanna og húsaleiga til samans sje um 85 þúsund.

Eitt er það í frv., sem undir öllum kringumstæðum verður að fella burt ákvæði um, að forstjóri landsverslunarinnar ráði eftirlitsmann lyfjabúða; slíkt hlýtur vitanlega að heyra undir stjórnarráðið. Eins vona jeg, að háttv. deildarmenn sjái, að þótt sá starfi væri lagður niður, verður núverandi eftirlitsmaður að fá laun út ráðningartímann.

Að öðru leyti mæli jeg með því, að frv. þetta fari í nefnd og verði athugað vel, því margt er það í sambandi við það, er þarf að íhuga nákvæmlega, áður en gerðar verða breytingar.