24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

84. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Hæstvirtur forsætisráðherra (SE) gat þess, að þetta mál væri flókið og íhugunarvert, en mjer finst það alls ekki flókið, heldur svo óbrotið sem mest má verða. Jeg skal viðurkenna, að frv. er ekki heppilega orðað að einu leyti, þar sem talað er um, að forstjóri landsverslunarinnar geti ráðið mann til eftirlits vínsölu til lyfjabúða, í samráði við ríkisstjórnina. Sjálfsagt er rjett, að sá maður sje settur af stjórnarráðinu, og má þetta orðalag auðveldlega laga við síðari umræður.

Að því er snertir tölur þær, er jeg tilfærði, þá ætla jeg, að þær sjeu rjettar. Jeg tók það fram, að jeg vissi ekki ákveðið um húsaleiguna, en mjer er kunnugt, að hinir lægri starfsmenn við verslunina hafa þetta 400–600 krónur á mánuði; það hef jeg eftir sögu sumra þeirra sjálfra. Hvað hinir hærra settu hafi, sem eru á skrifstofunni og við vandameiri störf, er mjer ekki eins kunnugt; jeg mun þar hafa áætlað lægstu upphæð. Jeg er ekki að tilfæra þetta af því, að mjer þyki það sjerstaklega of hátt. Þessir menn verða sjálfsagt varir við dýrtíðina hjer, sem aðrir, en jeg bendi á það vegna þess, að óþarfi er að greiða þetta fje, ef versluninni má koma fyrir á einfaldari hátt.