19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

75. mál, bæjargjöld í Reuykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. er samið af bæjarstjórn Reykjavíkur, og þrír af þm. bæjarins hafa tekið að sjer að bera það fram. Löggjöf okkar um þetta efni er frá árinu 1877, og hefir lítið eða ekkert verið breytt síðan. Lögin eru orðin úrelt í mörgum atriðum, og eðlilegt, að þau þurfi breytingar við.

Annars fylgir frv. ítarleg greinargerð, þar sem skýrt er frá því í heild, og vísa jeg til þess. Það eru aðeins nokkur atriði, sem jeg vildi drepa á. Og er þá fyrst lóðargjaldið, sem ætlast er til að verði allstór tekjugrein fyrir bæjarsjóð; það er ákveðið í frv. 2% af virðingarverði byggingarlóða eftir fasteignamatslögunum. Og er þetta í fullu samræmi við það, sem þingið hefir áður heimilað bæjum og sveitarfjelögum. Á Akureyri hefir verið komið á lóðargjöldum, alt að 2% af virðingarverði samkvæmt fasteignamati; og í fyrra var Húsavík veitt samskonar heimild, án þess að það vekti nokkra mótspyrnu.

Jeg álít það athugunarmál, hvort ekki sje betra að veita aðeins heimild til, að bæjarstjórn geti lagt skatt á lóðir, alt að vissu marki, án þess að einskorða það við 2 af hundraði, eins og nú er í þeim tveimur bæjarfjelögum, er jeg nefndi, að þetta er á valdi borgaranna.

Annars er gjaldið rjettmætt og sanngjarnt. Það er ekki rjett, að einstakir menn geti, í von um verðhækkun síðar, setið með óbygðar lóðir og stórar landsspildur fyrir hinum, sem þurfa og vilja byggja hús á þeim, og það án þess, að bæjarfjelagið hafi nokkrar tekjur af þessum eignum. Þetta lóðargjald frá 1877, sem nú er, nemur 1/4 eyris af feralin af óbygðum löndum og 3 aurum af feralin af bygðum lóðum, og er engin sanngirni í, að það sje haft jafnt af öllum lóðum í bænum, þeim, sem eru í útjöðrum bæjarins, og lóðum í miðbænum. Það er augljóst hverjum hugsandi manni, að slíkt er mjög ranglátt.

Tvö nýmæli eru í frv., að útsvarsskyldan nái til allra þeirra manna, sem lögskráðir eru á skip hjeðan úr bænum. Væri þó, ef til vill, betra að setja um það einhver ákveðin tímatakmörk, og gæti jeg vel felt mig við, að það væru t. d. 4 vikur, sem atvinnan væri stunduð, til þess að hlutaðeigendur gætu orðið útsvarsskyldir. Í öðru lagi má geta um ný gjöld, þar sem húsaskatturinn er talinn sjerstaklega. En hann er látinn koma í staðinn fyrir öll gömlu gjöldin af húsunum, t. d. sorphreinsun, salernahreinsun og sótaragjald.

Eigi er ætlast til, að skatturinn verði í teljandi hærri en áður, aðeins færð saman gjöldin í eitt, og í því er nýmælið fólgið. Samkv. því, sem stendur í greinargerðinni, er þessi hluti fasteignagjaldsins áætlaður 160 þúsund. En árið 1922 í eru hin áðurnefndu og samanfærðu útgjöld áætluð 159500 krónur. Það er og nýmæli í þessu frv., að um innheimtu bæjargjalda eru settar samskonar reglur og fylgt mun vera sumstaðar erlendis. Efnaðri mönnum er dráttur á greiðslu slíkra gjalda töluvert hagsmunaatriði. En á hinn bóginn getur greiðsludrátturinn leitt til þess, að bæjarstjórnin þurfi að taka lán. Í frv. eru því sett einskonar refsiákvæði, til þess að koma í veg fyrir dráttinn, þannig, að gjaldandi skal greiða bæjarsjóði dráttarvexti, er nemi 1% — einni kr. af hverjum 100 kr. — fyrir hvern mánuð, eða hluta úr mánuði, sem liður frá gjalddaga, uns gjaldið er greitt að fullu. Jeg man svo ekki eftir fleiru, sem jeg þarf að minnast á, en vænti góðra undirtekta og að frv. nái fram að ganga. Sting jeg upp á, að því verði vísað til allshn., að lokinni þessari umr.