24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

98. mál, útsvarsskylda vatnsnotenda

Einar Þorgilsson:

Jeg sje ekki ástæðu til að vera margorður um frv. á þessu stigi málsins. En það vildi jeg taka fram, að sumt af því, sem hv. 1. þm. Reykv. (JakM) talaði um lögskýringu, virtist næsta vanhugsað. Og yfirleitt er frv. svo úr garði gert, að orðum og efni, að ekki getur komið til mála að samþykkja það. Flest atriðin, sem tekin eru til samanburðar í greinargerðinni, eru svo ósambærileg, að ómögulegt er að þau geti talist rök fyrir málinu. T. d. virðist nokkuð ólíkt á komið með Skeiðaáveituna og rafmagnsveituna í Reykjavík. Upptök vatnsins til hennar eru í Mosfellssveit og orku vatnsins þar strax breytt í raforku með vjelum, bæði til lýsingar í húsum stöðvarinnar og fleiri afnota þar á staðnum, þótt aðallega sje hún leidd til Reykjavíkurbæjar, sem svo hagnýtir sjer hana á ýmsa vegu. Með áveituna austanfjalls er öðru máli að gegna. Þar eru upptök vatnsins í sama hreppi sem því er ætlað að verða að nytjum, víðast hvar, og ef fleiri hreppsfjelög verða aðnjótandi áveitunnar, þá mun það vera samkomulagsatriði viðkomandi hreppa.

Jeg geri ráð fyrir, að ef málið nær að ganga til 2. umr., þá muni nefnd sú, sem því verður vísað til, breyta því að miklum mun, og sje jeg því ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum að þessu sinni.