24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

98. mál, útsvarsskylda vatnsnotenda

Flm. (Jakob Möller):

Jeg tók það fram í upphafi, að orðalag frv. gæti ef til vill valdið misskilningi. Jeg fyrir mitt leyti verð þó að halda því fram, að endanleg hagnýting vatnsorkunnar fari fram þar, sem rafmagnið er notað. En jeg vakti einmitt athygli hv. nefndar á þessu, og vænti þess, að hún geri á því þær leiðrjettingar, sem hún telur þurfa, og ætti henni að vera innan handar að taka af öll tvímæli í þessu efni. En jeg vil benda á, að þó raforkan væri hagnýtt á staðnum, þar sem hún er framleidd, þá er rjett að leggja útsvar aðeins á þann hlutann, sem þar er notaður.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. G.-K. (EÞ) sagði, þá þarf jeg ekki að vera margorður. Jeg var áður búinn að leiða rök að skyldleikanum með rafmagnsveitu og áveitu, og sje ekki, að það skifti máli, hvort vatnið, sem til þess fer, er notað strax eða ekki. Það, sem um er að ræða, er það, hvort fyrirtækin eru stofnuð og rekin til almenningsþarfa eða ekki. En þetta mál snertir ekki aðeins Reykjavík, heldur alt landið, þar sem til mála getur komið að reisa raforkustöðvar. En þetta er víða fyrirhugað, og því sumstaðar sameiginlegt í mörgum sveitum. En það er ekki sanngjarnt, að einn hlutinn geti lagt svo og svo þung gjöld á hina alla fyrir þá sök, að stöðin, sem allir nota, verður þá skattskyld á einum stað. Alveg á sama hátt ætti þá eftir þessu að mega skattleggja vatnsveitur.