02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Frv. þetta er borið fram fyrir beiðni íbúanna á Langanesströndum.

Gunnólfsvík mun vera besta höfnin á öllu svæðinu milli Seyðisfjarðar og Akureyrar. Útgerð talsvert mikil hefir verið stunduð þar, því að fiskimið ágæt eru þar skamt frá landi. Til skamms tíma hafa, Langanesstrandamenn verslað að mest öllu leyti á Bakkafirði. En nú er sú verslun, sem þar hefir verið, að mestu lögð niður, og verða þeir því að sækja til Þórshafnar. Er nú í ráði, að verslun verði sett á stofn í Gunnólfsvík. Af þessu, sem jeg hefi tekið fram, ber brýn nauðsyn til þess, að sími verði lagður til Gunnólfsvíkur. Verði það, þá mun það leiða til þess, að þar mun rísa upp talsvert fiskiver. Og sjálfsagt munu þá margir sjómenn af Norður- og Austurlandi sækja þangað á sumrin, því að fiskur bregst aldrei sunnan við Langanes eftir að komið er fram í júlí. Sími þessi myndi því verða talsvert notaður, bæði vegna verslunar og útgerðar. Enn ber þess að gæta, að útlend skip myndu nota hann talsvert mikið, því að innsigling af fiskimiðum þeim, er þeir liggja iðulega á, er svo stutt inn á Gunnólfsvík; miklu styttri en til annara hafna.

Lína þessi yrði hliðarlína frá línunni, sem liggur um Strandir til Þórshafnar. Lengd hennar verður aðeins bæjarleið, og getur hún því ekki kostað mikið, í samanburði við þau not, sem af henni munu verða.

Að lokinni þessari umræðu vil jeg leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til sanigöngumálanefndar.