03.03.1923
Neðri deild: 11. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

45. mál, laun embættismanna

Flm. (Magnús Jónsson):

Frv. þetta er á þskj. 47, og þar eru greindar ástæðurnar fyrir því.

Á stríðstímanum og fyrst á eftir voru, eins og kunnugt er, góð ár fyrir landbúnaðinn. Sparisjóðseignir manna fóru vaxandi, og er það skýrasti mælikvarðinn á afkomu almennings. Sveitaprestar nutu þess, eins og aðrir bændur. En áður en launalögin voru endurskoðuð og bætt, áttu allir mjög erfitt uppdráttar, sem í embættum sátu í kaupstöðum og þorpum, og söfnuðu skuldum. Kjör sveitapresta voru því þyrnir í augum margra, þegar verið var að bæta launin og talað var um kjör embættismanna. Þótti því ekki ástæða til, að þeir nytu sömu hækkunar og aðrir.

Stjórnin sá því ekki annað fært en að taka upp í frv. takmörkun á dýrtíðaruppbót sveitapresta. Ekki af því, að þá mætti svifta uppbót, heldur af því, að þeir fengju hana ekki, þingið mundi ekki samþykkja það. Nefndin í Nd. lagði til, að þessi takmörkun á dýrtíðaruppbót væri feld burtu. Frsm. bar fyrir þær laukrjettu röksemdir, að engin trygging væri í framtíðinni fyrir þessum ágóða af búskap; sagði auk þess, að gert væri of mikið úr hlunnindum þeirra. Endurmat færi fram á prestssetrunum. Forsrh. var sammála nefndinni, og tók fram, að takmörkunin væri sett af ótta við þingið; óttaðist, að það mundi taka málinu ver, ef eigi væri takmörk sett í þessu atriði. Nd. skildi svo við málið, að takmörkunin var 1/2 dýrtíðaruppbót. Ed. leit svipað á, en lagði til, að takmörkunin væri hækkuð upp í 2/3. Vildi ekki fella þau niður vegna væntanlegs ágreinings; og þannig gekk það í gegn um þingið og er nú í gildi.

Við að athuga þessa sögu málsins, sjest, að þeir aðiljar, sem mest höfðu um það að segja, stjórnin og báðar nefndirnar, voru á móti takmörkuninni. Fyrir þessu, að sveitaprestar fái ekki fulla dýrtíðaruppbót, er ein og aðeins ein röksemd færð: þ. e. gróði sá, er sveitaprestar hafi á búskap.

Um 1/2 uppbótina, sagði 1. þm. N.-M.

(Jón Jónsson):

„Þessi tillaga byggist á því, að prestar, sem hafa góðar jarðir til ábúðar, verða ekki eins varir við dýrtíðina og hinir.

Jeg býst við að flestir prestar mundu heldur kjósa að halda bújörð sinni, heldur en fá alla uppbótina og vera án jarðanna“ o. s. frv. og 1. landsk. varþm. (SF) sagði:

„Prestar til sveita hafa þau hlunnindi fram yfir aðra starfsmenn ríkisins, að þeir eiga kost á að fá bújarðir, sem venjulega eru bestu jarðirnar í hverri sveit. — Hafa þeir sumir haft, og hafa enn, jafnframt prestskapnum, stórbú, er gefa af sjer allmiklar tekjur.“

Það er rangt í þessu, að prestar hafi einir þessi hlunnindi. Að vísu njóta þeir þessa fram yfir flesta aðra embættismenn. — Rökin eru þessi, og hefði búskapurinn verið þá eins og nú er orðið, hefði þessi takmörkun ekki verið samþykt.

Nú er þessi ástæða með öllu fallin burt, eins og margir kannast við. Raddir heyrast um, að bændur eigi afarerfitt uppdráttar, og það þó að þeir gefi sig alla við búskapnum, þá er ekki hægt að láta búin bera sig. Prestar, sem tefjast frá búskap og hafa kostnað og ættu að minsta kosti ekki að neyðast til að vera fyrst bændur og svo prestar, þeir hljóta að líða. skaða. Og ætti ekki að ala á því, að þeir bindist of mikið búskap á kostnað preststarfsins. Nú vill fjöldi presta sleppa jörðum sínum, ef þeir fá fulla dýrtíðaruppbót. Hafi vafi verið á því 1919, hvort prestar ættu að fá takmarkaða dýrtíðaruppbót, þá er sá vafi burtu fallinn nú.

Jeg hefi í greinargerð frv. gert áætlun um, hvað sparnaður þessi á dýrtíðaruppbót hafi numið, og hverju hún muni nema. Mætti þó gera ráð fyrir lægri upphæð, ef þær vonir rætast, að dýrtíðin minki. Sje það nauðsynlegt, að spara, þá ætti það fremur að koma annarsstaðar niður. Ríkissjóður er búinn að spara c. 300 þús. kr. á þessum lið. Ætti nú ekki að nema staðar í ár, því fremur sem ilt er í ári, og tjáir ekki lengur að vitna til þess, að prestar alment græði á búskap. Má einnig í þessu sambandi geta þess, að laun presta eru lægstu embættislaun, en þó nálega sami undirbúningstími fyrir þeim sem öðrum embættismönnum. Ættu þeir þess vegna ekki að hafa lakari kjör, og því síður sem þeir hafa orðið fyrir halla undanfarin ár.

Órjettlæti kemur fram í því, að laun presta eru lægst, þrátt fyrir það; þótt þeir þurfi sama undirbúning sem aðrir embættismenn. Þetta kemur af því að margir þeirra búa í sveit, en það er ekki sá gróðavegur nú að stunda búskap, að nokkurt rjettlæti sje í því að vera að draga af dýrtíðaruppbót þess vegna, þar að auki við lágu launin.