10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

50. mál, laun embættismanna

Jónas Jónsson:

Mjer er kunnugt um vissa hlið þessa máls, því að annar kennarinn, sem þetta frv. er borið fram vegna, hefir kent við samvinnuskólann. Hann mintist á það við mig á götu í gær, að sjer fyndust launin ónóg og óviðunanleg, og hefði hann í hyggju að skrifa til þingsins um það. Mjer er ekki ljóst, hvernig stendur á, að það virðist vera venja að mynda embætti að þinginu fornspurðu. það er mjög órjett aðferð og gæti auðveldlega leitt út á hálar brautir. Ef það er rjett, að það sjeu 4 kennarar með venjulegum launum við mentaskólann, án samþyktar þingsins, hefir töluvert mikið verið gert að þessu.

Jeg skil ekki vel, hvað hv. 4 landsk. (JM) heldur, að þessar 2 nefndir, er hann nefndi, hafi með málið að gera. Jeg vonast a. m. k. eftir, að hann greini þá frá, hvernig hann hugsi sjer verksvið mentamálanefndar.