10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

50. mál, laun embættismanna

Flm. (Jón Magnússon). Það hefir hingað til verið venja að vísa til allshn. frumvörpum um embætti, hvernig sem á embættunum stendur. Það má t. d. nefna það, að frv. um biskupsembættið er í allshn. í hv. Nd. Mál t. d. um skipulag skóla ganga til mentmn.

Það er víst, að fáist ekki uppbót á launum þessara 2 kennara við stýrimannaskólann, fæst enginn hæfur maður í þær stöður. Jeg gerði ráð fyrir, að ef eigi fæst að samþykkja hærri laun en frv. ræðir um, mundu kennararnir fá uppbót í fjárlögunum. Það ætti að vera óþarft að taka það fram einu sinni, að uppbót sú, sem hinn lögmælti kennari við stýrimannaskólann þegar hefir fengið á launum sínum, skuli haldast eftir sem áður. En í sambandi við það taldi jeg sjálfsagt, að málið gengi til fjvn.

Hvað snertir embætti við mentaskólann, þá voru þau víst stofnuð um 1910 tvö þeirra og stóðu í fjárlögunum, þegar launalögin komu; var ætlast til, að þau fjellu undir þau, en svo varð ekki. Það eru föst aukakennaraembætti, sem eru launuð samkv reglum í launalögunum. Það er öðru máli að gegna með leikfimiskennarann. Hann má beinlínis telja ráðinn af þinginu.

Jeg legg áherslu á, að hvernig sem með mál þetta verður farið, þá verður að stilla svo til, að kennararnir við stýrimannaskólann fái sömu launakjör sem við aðra sambærilega skóla, því að ekki er hægt að ætlast til að kennarar þessir uni öðru.

Það var rjett, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, að jeg hefði haft nægan tíma til að bera frv. fram sjálfur, en jeg gerði það ekki af því, að jeg hafði fengið loforð hæstv. ráðh. um að bera það fram. Auðvitað var ekki ætlast til, að hann tæki neina ábyrgð á því.

Viðvíkjandi mentaskólanum fyndist mjer ein breyting geta sparað nokkuð, og hún er sú, að hafa lærdómsdeildina ekki skifta í mála- og stærðfræðideild. En það væri enginn sparnaður að þrengja aðganginn að skólanum, því að það leiddi af sjer, að þingið neyddist til að setja á stofn sjerstakan gagnfræðaskóla.

Jeg vona, að hv. fjvn. taki svo í málið, að kennarar stýrimannaskólans, og þá sjerstaklega Einar Jónsson, megi vel við una.