02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Hákon Kristófersson:

Í aðalatriðum get jeg verið sammála hv. 1. þm. Árn. (EE). Þó vil jeg taka það fram, að það er ekki rjett hjá háttv. þm., að síðasta þing hafi aðeins gefið vilyrði fyrir símalagningu frá Búðardal til Króksfjarðarness. Það var ákveðið loforð fyrir símalagningunni. enda fje veitt til hennar í fjárlögum, svo um vilyrði frá þingsins hálfu þurfti þess vegna ekki að tala. Þó að hv. fjárveitinganefnd legði til í fyrra að fresta öllum símalagningum, lýsti hún þó að lokum yfir því, að það ætti ekki við þá símalínu, sem hjer er um að ræða, enda lofaði hæstv. atvinnumálaráðherra, að línan skyldi lögð 1923.