28.02.1923
Efri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

34. mál, íþróttasjóður í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Háttv. 4. landsk. þm. (JM) hafði margt að athuga við frv. mitt. Skal jeg því stuttlega svara athugasemdum hans, sjerstaklega þeim, er snerta hin sögulegu atriði málsins.

Háttv. þm. talaði fyrst um það, að íþróttamenn hefðu ekki viljað borga skemtanaskatt í fyrra. En slíkt er ekki nema venjulegt, að menn mæli alment á móti sköttum, er þeir þurfa að borga þá sjálfir. Þannig er það algengt, að ríkir menn mæli á móti háum sköttum. Er því engin ástæða til að taka þessi mótmæli hátíðlega.

Jeg talaði í gær við einn af læknum þessa bæjar, sem einmitt hefir látið heilbrigðismál mikið til sín taka og er sannur íþróttavinur. Hann taldi sundhöllina vera sitt áhugamál og stórt spor stigið í framfaraáttina, ef það næði í fram að ganga. Læknir þessi var Guðmundur Björnson landlæknir. Þar sem jeg veit nú, að háttv. 4. landsk. þm. (JM) hefir mikið álit á landlækni, vona jeg að hann taki þetta því sem meðmæli með frumvarpinu.

Mjer er vel kunnugt um, að margir mikilsráðandi menn hjer eru á móti þessu máli. En það eru einmitt þeir menn, sem eru venjulega á móti öllum framförum, og hafa hvorki skilning nje áhuga á því, sem til framfara horfir, og var einn þessara manna með mikla yglibrún, er frv. þetta varð kunnugt almenningi í bænum.

Þá kom fram allmikil mótsögn hjá háttv. þm. (JM), er hann taldi þetta eingöngu vera bæjarmál, sem Reykjavík ein ætti að fjalla um. En talaði þó í öðru orðinu um að styrkja það af landsfje. Jeg vil enn halda því fast fram, að þetta sje mál, sem snerti alt landið; því að litlar líkur eru fyrir því, að bæjarstjórnin komi því í framkvæmd, þar sem hún hefir ekki sjeð ástæðu til að byggja baðhús við leikfimishús barnaskólans, fyr en í vetur. Hygg jeg því, að þess yrði langt að bíða, að bæjarstjórnin fari að leggja fram fje til þess að byggja nýjar sundlaugar heima við við bæinn.

Hvað snertir arðinn af íþróttasýningunum, þá er það fullvíst, að meira en 15 þúsundir koma inn fyrir þær sýningar árlega. Annars er það ekki aðalatriði, hve mikill þessi skattur er eða verður hvert einstakt ár, heldur hitt, að stiga rjett spor í framfaraáttina. Gefa íþróttamönnunum tækifæri til að sýna, áð þeir láti framtíðarheill sitja í fyrirrúmi fyrir stundarhagnaði.

Ef nú háttv. 4. landsk. þm. (JM) tekst að eyðileggja þetta mál, þá sjest best, hve mikið er af stórhug og krafti í þessari háttv. deild. Og mun jeg seinna sjá, eftir þeim móttökum, er önnur frv. fá, sem jeg ætla að koma með á þessu þingi, hvað þessi háttv. deild leggur til hinnar innri viðreisnar landsins.