10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

51. mál, meðferð á því fé sem landssjóði áskotnaðist fyrir áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg var að bíða eftir því, að hæstv. stjórn tæki til máls. Hjer er um stórt mál að ræða, og bjóst jeg því við, að hún ljeti eitthvað til sín heyra Sjerstaklega átti jeg von á því, að hæstv. fjrh. (MagnJ) ljeti sig ekki vanta við þessar umræður, því að hjer ræðir um að taka mikið fje undan yfirráðum þingsins og skerða með því fjárstofn þann, sem þingið á að verja til þarfa landsins.

Jeg saknaði þess í ræðu hv. flm. (JJ), að hann gerði grein fyrir því, um hve mikið fje hjer er að ræða. Víst er um það, að það er mikið fje. Tollurinn mun nema 365 þúsundum. Maður hefir heyrt ýmsar tölur um hagnaðinn af áfengissölunni. Jeg hefi heyrt, að hagnaðurinn muni vera um 200 þús. kr. nú þegar. Jeg veit ekki, hvort það er satt, en ástæða er til að flm. hefði gert nokkra grein fyrir þessu. Auk þess mun sektarfje nema nokkru, og andvirði fyrir óleyfilega innflutt vín. Við skulum gera ráð fyrir, að öll upphæðin verði 700 þús. kr., þá kemur spurningin: Höfum við efni á að missa þetta fje? Jeg skal ekki bera á móti því, að æskilegt væri að geta stutt þessar stofnanir. Það vilja allir. En fyrst verðum við að vita, hvort nokkuð er til í vasanum, áður en við förum ofan í hann til að gefa úr honum; það verður þingið að gera hjer. Jeg get ekki dulist þess, að það munu verða skiftar skoðanir um það, hvort nú eigi að verja 20% af þessu fje, eða 140 þús. til bindindissjóðs. Jeg bar fram á síðasta þingi að veita 5000 kr. í sama skyni, en það fjekst ekki, en var fært niður í 3000 kr. Því er kynlegt að búast við, að þingið verði svona stórtækt nú. Eftir þessu frv., ætti að leggja hjer árlega til náttúrufræðisiðkana 70 þús., til þess að koma út skemtibókum 70 þús., til þess að kaupa listaverk 70 þúsund. Já, það væri gaman að vera ríkur, en að hinu er minna gaman, að látast vera ríkur, en vera fátækur. Jeg ætla ekki að halda langa ræðu á móti þessu, jeg vildi ósköp gjarnan styrkja alt þetta, en þetta frv. er svo fáránlegt, í þeirri mynd, sem það nú er, að jeg á ómögulegt með að greiða því atkv. til 2. umr. Jeg óska nafnakalls um frv.