23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

69. mál, bæjarstjórn á Seyðisfirði

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að fara fáeinum orðum um 7. gr frv., en þó ekki alveg á sama hátt og hv 4 landsk. þm. (JM). Það væri eðlilegast, að þessi grein í uppkasti Seyðfirðinga sje feld, því að það er óeðlilegt, að ætlast til þess, að bæjarstjórnin, sem semur sjálf reikningana, kjósi endurskoðanda þeirra. Það er hugsunarrangt og galli á frv., og jeg er hissa á, að farið skyldi vera á stað með það þannig útbúið. Viðvíkjandi 3. gr. skal jeg benda á það ósamræmi hjá háttv. frsm. nefndarinnar (JM) að vilja þar þrengja að valdi bæjarstjórnarinnar, með því að sporna við, að lagður sje skattur á lóðir, en sami maður gerir ráð fyrir, að bæjarstjórn Reykjavíkur eigi að hafa fullveldi í sínum húsaleigumálum. Það er heldur ekki alveg rjett að fullyrða, að skatturinn, sem bæjarstjórn Seyðfirðinga legði á, mundi nema 4%, þó það yrði að lögum. Jeg vil benda á það ósamræmi að leyfa ekki Seyðfirðingum að leggja skatt á lóðir hjá sjer, úr því að aðrir kaupstaðir mega leggja á húsaleiguokurskatt hjá sjer.