23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

69. mál, bæjarstjórn á Seyðisfirði

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg held, að það sje ekki rjett að bera þetta saman. Það er nefnilega dálítið gamalt mál hjer á þingi, þetta með skattaálagning bæjarstjórna. Fyrir mörgum árum kom frv. frá bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir þingið, um að mega leggja fasteignaskatt á bæjarbúa. Bænum var neitað um það af þinginu, ekki af því, að þingið áliti, að bærinn ætti ekki að stjórna málefnum sínum, heldur af því, að þetta er skattstofn, sem ríkið þarf einnig að hafa tekjur af, og því sjálfsagt að leyfa engum bæ að brúka slíkan skattstofn alveg upp. Er efamál, hvort ekki sje gengið of langt með því að leyfa bæjum að leggja 2% skatt á fasteignir, því að þá er þess að gæta, að eitthvað sje eftir, til þess að leggja á ríkisskatt. Jeg vona, að flestir álíti, að þegar lagðir hafa verið 4% í skatt á lóðir, þá sje lítið eftir handa ríkinu. Á þessu sviði eru þau tvö öfl, sem koma til greina, ríkið og bærinn, eða stærra ríki og minna ríki. Það er heimilt og sjálfsagt að gæta þess við skattaálögur, að eigi sje haldið lengra en svo, að ríkið eigi eitthvað eftir til að afla sjer tekna af, því að það má af engu missa, og þess hagur er allra hagur. Jeg man ekki hvernig það er hjá öðrum kaupstöðum með endurskoðun, en jeg hygg, að endurskoðendur sjeu oft kosnir af bæjarstjórn, og þá með hlutfallskosningu. Auðvitað lætur nefndin sjer þó í ljettu rúmi liggja með örlög 7. greinar, hvort hún verður feld eða ekki. Það hefir litla þýðingu fyrir málið. Jeg geri þó ráð fyrir, að bæjarstjórn mundi betur kunna að velja færa menn í þá stöðu en almenningur, og sjerstaklega þegar jeg geri ráð fyrir, að endurskoðun bæjarreikninga teljist fremur töluendurskoðun en „kritisk“ endurskoðun.