10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Hákon Kristófersson:

Það var alveg rjett, sem hv. frsm. (ÞorstJ) sagði um afstöðu mína til frv. Það, sem vakti fyrir mjer, var hið sama, sem kom fram í ræðu hæstv. atvrh. (KIJ). Jeg var ekki mótfallinn þessari línu, en leit svo á, að hún ætti að bíða og aðrar nauðsynlegri að ganga fyrir. En eftir orðum hæstv. atvrh. er því fullnægt, sem fyrir mjer vakti, að línan verði ekki lögð fyr en fje er veitt til hennar í fjárlögum.

Eins og gefur að skilja, verður jafnan nokkuð reiptog um, hver símalínan skuli ganga fyrir, þegar margar eru ákveðnar fyrirfram, og verður það ávalt að mestu leyti eftir tillögum landsstjórnarinnar og símastjóra. Hæstv. atvrh. (KIJ) nefndi nokkrar línur, sem nauðsynlegastar væru og ættu að ganga fyrir. Mjer hefði þótt vænna um að heyra, ef hann hefði talið brýna nauðsyn á betra símasambandi við Vesturland.

Símasambandið við Vestfirði er ekki trygt, þótt Króksfjarðarsíminn komi; það

verður ekki örugt fyr en síminn er kominn til Patreksfjarðar og þaðan í Rauðasandshreppinn, eins og löngu fyr er búið að gera ráð fyrir. Þess vegna verð jeg að halda því fram, sem einnig er álit landssímastjóra, að símasambandið við Vesturland sje eitt af því allra nauðsynlegasta, sem framkvæma þarf.

Jeg mun greiða atkv. með máli þessu, en þessa grein vildi jeg gera fyrir því, hvað fælist bak við atkv. mitt.