27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

105. mál, innlendar póstkröfur

Bjarni Jónsson:

Svo skildist mjer ræða hæstv. atvrh. (KIJ), sem póststjórnin hafi gert sjer leit að ástæðum, er mælt gætu í gegn till. þeirri, er hjer ræðir um. En hvort er svo, að pósthús og póstþjónar sjeu fyrir þjóðina, eða þjóðin fyrir þá? Póststarfsemin er orðin það mikið bákn og dýr þjóðinni, að póststjórnin ætti ekki að geta skorast undan að gera mönnum þetta litla hagræði, því ef þessu verður ekki framgengt, verður ókleift að gefa út blöð og tímarit framvegis. Einstökum útgefendum blaða eða rita er ómögulegt að hafa menn úti um alt land til að innkalla fyrir sig andvirðið. Slíkt er nógu erfitt fyrir bóksalafjelagið.

Því er alls eigi hægt að berja við, að brjefhirðingamönnum sje starf þetta ofvaxið. Þeir mundu allir geta útfylt skýrslur, sem með þarf, og innkallað fjeð. Þeir mundu vitanlega fá skýrsluform, og það mundi vera auðvelt að útfylla, því starf þetta er ekki margbrotið. Hjer á landi er lítið um skynskiftinga, nema þá ef til vill á hinum hærri stöðum, svo sem vera kynni hjer á þingi, en svo er eigi um allan almenning.

Kostnaður af þessari innheimtu mundi enginn verða fyrir póstsjóð, því hann fengist endurgreiddur af fje því, er greitt er fyrir innheimtuna.

Jeg vildi segja þessi örfáu orð til stuðnings till., en ekki af því, að jeg viti ekki, að háttv. flm. (MJ) hefir næg rök. Það má ekki vera óátalið, að póststjórnin reyni þannig að koma sjer undan að gera skyldu sína.