27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2981)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Hákon Kristófersson:

Það var viðvíkjandi því, sem kom fram í ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), að ef aðstoðar dýralæknis þyrfti með, yrði það kostnaðarauki fyrir ríkissjóð. Þessu vil jeg mótmæla fyrir hönd allra bænda, og jeg býst við, að jeg megi óhætt fullyrða, að svo megi segja vegna margra annara hv. deildarmanna; í það minsta fullyrði jeg, að við 3 bændur, sem sitjum hjer hver hjá öðrum, munum vera þar allir á einu máli. Laun dýralæknis eru svo ríflega ákveðin, að þessa á ekki að vera þörf; enda geri jeg ráð fyrir, að dýralæknir sje sjálfsagður ráðunautur stjórnarinnar í þessu efni. Þessu vildi jeg ekki láta ómótmælt, ekki síst af því, að hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að fje yrði greitt fyrir aðstoð dýralæknis, ef enginn mælti á móti því nú.

Hitt er annað mál, að hafi dýralæknir einhvern kostnað af ferðalögum eða þ. u. 1., þá ber honum að sjálfsögðu endurgjald fyrir það. En þó að stjórnin leiti álits og umsagnar dýralæknis og njóti að öðru leyti smávægilegrar aðstoðar frá honum, á slíkt ekki að geta leitt til neinna útgjalda.

Viðvíkjandi baðlyfinu verð jeg að segja, samkvæmt minni eigin reynslu, að til þess að það verði óyggjandi, verður að blanda það sterkt; en ekki veit jeg til, að lyfið hafi valdið slysum. Um verðið skal jeg ekki ræða sjerstaklega; fer það alt eftir blönduninni. En það er líklega fremur dýrt. Árangurinn af notkun þess hygg jeg ekki að hafi verið sem verstur, að minsta kosti drap það færilúsina á mínu fje. Baðlyf það, sem jeg fekk frá stjórnarráðinu á síðastliðnu hausti, kom svo seint til mín, að þá voru margir búnir að afla sjer baðlyfs annarsstaðar frá; enda baðlyfið nokkru dýrara en önnur baðlyf, þegar tillit var tekið til þess, hve lítið mátti blanda það. Mjer gat því ekki tekist að selja nærri því alt baðlyfið. Þó hygg jeg, að svo mikið hafi verið notað af því í mínum hreppi, bæði af mjer og öðrum, að jeg geti nokkurn veginn dæmt um nothæfi þess. Mín reynsla var sú, eins og jeg hefi þegar tekið fram, að baðlyf það, sem hjer er um að ræða, sje mjög vel nothæft, en mun dýrara en ýms Coopers-baðlyf. Og það hygg jeg, að óskaðlegt sje það, ef rjett er með farið. Kemur mjer því mjög á óvart, að það hefir reynst skaðlegt annarsstaðar, eftir því sem hv. þm. skýra frá.