27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hæstv. atvrh. (KIJ) taldi, að það þyrfti að greiða sjerstaklega dýralækninum fyrir aðstoð hans, en hv. þm. Barð. (HK) mótmælti því aftur á móti. Jeg tel sjálfsagt, að svo framarlega sem þetta kemur ekki í bága við önnur nauðsynlegri embættisstörf hans, þá sje aðstoð dýralæknisins ókeypis. En þurfi hann mikið fyrir að hafa eða það rekur sig á önnur störf hans, þá þurfi auðvitað að greiða honum fyrir ómak sitt.

Viðvíkjandi kaupum á danska baðlyfinu, þá er það að segja um tillögur þeirra þar um, dýralæknis og Gísla Guðmundssonar, að dýralæknirinn segir, að fjáreigendur muni sækjast eftir því sem góðu og ódýru baðlyfi, en Gísli Guðmundsson mælir svo fremi með kaupunum, að tilraunastofa landbúnaðarháskólans ábyrgist, að lyfið sje gott. Það er og eftirtektarvert, að báðir taka það fram, að lyfið leysist illa upp, og tel jeg því líklegt, að slysin geti hafa stafað af því. Jeg tel því nauðsynlegt, að ítarlegar leiðbeiningar um uppleysing þess og aðra meðferð verði útvegaðar, þar á meðal, hve lengi fjeð skuli vera niðri í baðinu. Má vera, að hin slæma reynsla á baðinu eigi þar rót sína, því jeg sje á fyrirsögn um gæði og notkun baðlyfsins frá Dönum, að til þess að þessi tegund drepi maurinn, verður kindin að liggja niðri í baðleginum meira en 3 mínútur, eða 202 sekúndur.