10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Út af ræðu hv. þm. Barð. (HK) vil jeg minna hann á, að nokkurt gegn verður hann að viðurkenna, að það sje fyrir Vesturland að fá síma frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar. Líka má hann minnast þess, að hinn nafnkunni Króksfjarðarsími kemur nú á þessu ári.

Hvað snertir símana á Austurlandi, skal jeg taka það fram, að mjer er ekki kunnugt um, að brýn nauðsyn sje talin á síma til Brekku, en á símanum til Loðmundarfjarðar veit jeg, að talin er mikil nauðsyn og að hann verði lagður svo fljótt sem unt er. Jeg skal játa það, að jeg þekki ekki vel til á Austurlandi, en hitt veit jeg, að þörfin á þessum símalínum fyrir norðan er mikil og að þær hefðu átt að vera komnar fyrir löngu. Er og líka þess að gæta, að fje er nægilegt fyrir hendi frá sýslnanna hálfu til að leggja línur þessar, og eins línuna til Grundarfjarðar.