27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Jón Þorláksson:

Tilgangur brtt. minnar var sá, að tryggja það, að uppástungurnar yrðu lagðar fyrir næsta þing. Er þeim tilgangi mínum náð með yfirlýsingum hv. flm. (MJ) og hæstv. atvrh. (KIJ), hver till. sem svo ofan á kann að verða.

En það er atriði í aðaltill., sem fer í bága við þessar yfirlýsingar, þar sem skorað er á stjórnina að gera nú þegar uppdrætti í mælikvarðanum 1:100000 af þeim hlutum landsins, sem þegar hafa verið dregnir upp í mælikvarða 1:50000. Veit jeg ekki, hvort rjett er að gera slíkar áskoranir, þar sem liggur fyrir yfirlýsing frá herforingjaráðinu um það, að það ætli að gera þetta. Er það því nokkurt kostnaðarspursmál, hvort íslensku stjórninni eða herforingjaráðinu beri að framkvæma þetta.

Líti herforingjaráðið svo á, að það eigi að ljúka við það, er það mældi áður en sambandslögin voru samþykt 1918, þá mun það líka kosta þessa uppdrætti.

Má einnig benda á, að ef fje það, sem varið er til þess að gera mælingarnar, reynist ekki nóg, þá verður það til þess, að tekin verður upp aukafjárveiting á næsta þingi, og sýnist því ástæðulítið að koma með till. um þetta nú.

Jeg hefi ekkert á móti því, að brtt. á þskj. 465 verði skoðuð sem brtt. við mína brtt., þó jeg skoði það óþarft. Stjórnin getur vel leitað samninga við herforingjaráðið og gætt þó allrar kurteisi gagnvart dönsku stjórninni.