02.05.1923
Efri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Jónas Jónsson:

Jeg er mjög ánægður yfir því, að tillaga þessi skuli vera fram komin. Það mun nú vera búið að kortleggja Skaftafellssýslur, Suðurland alt og Vesturland og meiri hluta Húnavatnssýslu. Þá er ekki eftir nema Skagafjörður, Eyjafjörður, Þingeyjar- og Múlasýslur. En nú á síðustu árum hefir orðið tvennskonar ráðabreytni með kortagerðina. Annars vegar hefir orðið nokkurt hik á framkvæmdum um stund, og hins vegar var það, sem síðast var kortlagt, haft í minna formi. Það mun vera Húnavatnssýsla, sem þannig var gengið frá. Jeg vil nú kasta þeirri spurningu til hv. 4. landk. þm. (JM), þó að hann hafi að vísu mælst undan, að að sjer væri vikið sem stjórnanda, hvers vegna sú ráðabreytni hafi verið upp tekin að minka mælikvarðann, og hvort það sje nokkuð fastbundið að hafa það svo í framtíðinni. Jeg hefi heyrt margar raddir um, að það sje ekki til bóta; kortin voru ágæt eins og þau voru. En hvað sem þessu líður, þá álít jeg þessa tillögu góða og mun greiða henni atkvæði. Það skaðar ekki, þótt eigi verði byrjað í sumar, ef framkvæmdir verða því betri á næsta sumri.