10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Örfá orð. Þótti gott að heyra, að landssímastjóri og hæstv. atvrh. telja þörf á Loðmundarfjarðarsímanum, en mjer skildist, að hæstv. ráðherra teldi ekki eins mikla þörf á Brekkusímanum. Jeg hygg, að hjer sje erfitt að gera upp á milli, en það veit jeg, að eins mikil þörf er þessa síma og símans fram Skagafjörð. Á Brekku er sjúkrahús og læknissetur, og er það eitt nægilegt til þess að gera símaþörfina mikla. Enn vil jeg líka taka það fram, að hið víðáttumikla Upphjerað ásamt dölum, Jökuldal, Fljótsdal og Skriðdal, er algerlega símalaust. En þegar Brekkusíminn verður lagður, eiga íbúar þessara sveita mun hægra með að ná til síma en áður. Hins vegar veit jeg, að stjórnin hefir í mörg horn að líta.

Í sambandi við þetta mál vil jeg geta þess, að mikil nauðsyn er á því, að lína verði lögð til Skála á Langanesi, því þar eru einhverjar bestu fiskistöðvar landsins. Sú lína ætti ekki að kosta mjög mikið, því að leiðin frá Þórshöfn til Skála er mjög auðveld til símalagningar.