05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

126. mál, bygging landsspítala

Jónas Jónsson:

Jeg vil fara fáeinum orðum um þessa þáltill., ekki til að mótmæla henni, og heldur ekki af því, að jeg sje henni að öllu leyti samþykkur; aðeins til að skýra málið nokkuð frá mínu sjónarmiði.

Jeg býst ekki við, að deilt verði um það, að við þurfum að fá landsspítala. Nú sem stendur lifum við á náð tveggja útlendra fyrirtækja, og er annar þeirra spítala notaður fyrir franska sjómenn nokkurn hluta árs. En báðir eru þeir timburhús, og því meiri hætta á að þeir brenni. Má í raun og veru segja, að ef Landakotsspítalinn brynni, þá stæðum við uppi spítalalausir. Það er ljóst, að við svo búið má ekki standa.

Hitt er annað mál, að ekki má einungis miða við áætlanir þær og teikningar, sem gerðar hafa verið af nefndinni, sem skipuð var 1921, og hæstv. forsrh. (SE) mintist á fyrir skömmu. Jeg er einn þeirra, sem ekki vilja eingöngu miða við þær áætlanir. Í fyrstu var jeg hrifinn af teikningum þessum og sýndist þær harla álitlegar, en þegar jeg athugaði þær nánar, kostnaðaráætlunina og rekstrarkostnaðinn, fór ánægja mín þverrandi, og svo mun fleirum hafa farið. Jeg verð að segja það, að ef ómögulegt er að reisa spítalann í öðru formi en þar er gert ráð fyrir, þá eru litlar líkur til, að hann rísi upp á næstu árum. þegar það er athugað, að hann á ekki að rúma nema 150 sjúklinga, en á að kosta 3000000 kr., þá verð jeg að segja, að það er dýrt og að fjárhagur landsins má breytast töluvert til batnaðar, ef landið á að geta risið undir slíkri stofnun. Jeg sje ekki annað en fyrirfram verði að mótmæla því, að hrapað verði að slíku ráði.

En jeg vona, að hægt verði að leysa þetta vandamál öruvísi og á heppilegri grundvelli en nefndin hefir lagt til. Jeg segi þetta ekki hv. 6. landsk. þm. (IHB) til lasts, því þegar hún og hæstv. forseti (HSt) komu í nefndina, munu teikningamar og áætlanir hafa verið fullgerðar. Mín hugsun er sú, hvort ekki megi ráða fram úr byggingu landsspítala á ódýrari hátt. Jeg hygg, að læknarnir hafi ráðið of miklu um áætlanir nefndarinnar. Jeg get ekki hugsað mjer, að auk annara spítala hjer á landi fáum vjer risið undir þessari þriggja milj. kr. stofnun. Og þó er stofnkostnaðurinn mjer ekki mestur þyrnir í augum, heldur rekstrarkostnaðurinn og viðhaldið. Þó að jeg sje ekki læknisfróður, þá blandast mjer ekki hugur um, að áætlun nefndarinnar er að miklu leyti miðuð við, að spítalinn verði kenslustofnun, en þá er spurning, hvort ekki borgar sig betur að styrkja læknaefni til náms erlendis en að spítalinn verði svo dýr þeirra vegna. Og hann er furðulega dýr eftir áætluninni, ekki síst þegar þess er gætt, að ekki á að gera meira fyrir sjúklingana en svo, að flest rúmin eru ráðgerð í tólf manna herbergjum.

Jeg tek undir það með hv. 6. landsk. þm. (IHB), að afla þarf árlegra tekna til byggingarinnar. Verður erfitt að koma henni í framkvæmd með því að taka lán eða klípa til þess fje af fjárlögum.

En samhliða vil jeg skjóta fram þeirri spurningu, hvort ekki mætti endurskoða áætlanir og teikningar nefndarinnar. T. d. finst mjer undarlegt að byggja þetta stóra hús hjer í Skólavörðuholtinu og kaupa til þess öll kol frá Englandi með ærnum kostnaði, en í tveggja km. fjarlægð sendir náttúran okkur sjóðandi vatn meira en nóg til að hita slíka byggingu.

Þegar menn koma að Vífilsstöðum og sjá þar feikna kolabyngi, sem þangað eru fluttir á haustin, hlýtur þeim að blöskra, þegar þeir minnast þess, að hjerna í Mosfellssveitinni vellur vatnið upp úr jörðunni og er látið ónotað að mestu. En það er of seint að tala um, hvar hefði átt að byggja Vífilsstaðahælið, en einmitt rjettur tími til að athuga, hvort ekki megi láta hinn fyrirhugaða landsspítala njóta Lauganna hjer við bæinn.

Jeg kemst í töluverð vandræði við atkvgr. um þessa þáltill. Jeg er með henni að efni og anda, en ekki ánægður með formið. Jeg get ekki greitt atkv. með þáltill., ef jeg með því skuldbind mig til að vera fylgjandi því, að spítalinn verði reistur á þeim grundvelli, sem nefndin gerir ráð fyrir, og látinn sitja fyrir öðrum meiri háttar byggingum.

Annars hefi jeg áður á þessu þingi með till. minni um, hvernig verja skyldi ágóða af áfengisverslun ríkisins, sýnt hug minn til þessa máls, og mun nafn mitt í sambandi við þá till. nægja til að sýna, að jeg verð aldrei meinsmaður spítalamálsins, ef skynsamlega verður á því haldið.