04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. allsherjarnefnd kvaddi mig á fund með sjer þegar hún hafði þetta mál til meðferðar, og beindi þeirri fyrirspurn til mín, sem felst í tillögu þessari, hvort jeg mundi verða við þeim tilmælum að taka löggjöfina um málefni kaupstaðanna til endurskoðunar fyrir næsta þing. Jeg svaraði á þá leið, að jeg sæi ekkert því til fyrirstöðu, en tók þó fram, að varla mundi hægt að hafa Reykjavíkurkaupstað með í þeirri samræmingu. Svo sem menn vita, voru um langt skeið einungis 3 kaupstaðir á landi hjer. Reykjavík var langelsti kaupstaðurinn og hafði sjerstök lög. Árið 1883 voru samin ný kaupstaðarlög fyrir Akureyri og Ísafjörð, sem þá voru einu kaupstaðirnir á landinu að Reykjavík fráskildri. þessi lög voru talsvert frábrugðin tilskipuninni frá 1872, um bæjarmálefni Reykjavíkur, og þau sniðin eftir yngri lögum fyrir smærri kaupstaði í Danmörku. Þessi tvenn lög frá 1883, fyrir Akureyri og Ísafjörð, voru alveg samhljóða orði til orðs, nema 1. greinar laganna, sem fjölluðu um takmörk kaupstaðanna. Þegar lögin fyrir Seyðisfjarðarkaupstað voru sett, nokkru eftir 1890, voru þau sniðin eftir þessum 2 lögum. Eftir aldamótin fara að koma fram, eftir tilmælum frá einstökum kaupstöðum, ýmsar tillögur um breytingar á þessum lögum, sumar lítilfjörlegar, aðrar allmiklar efnisbreytingar, og voru þær flestar samþyktar. Þegar þetta var byrjað, fór að koma skrið á kaupstaðina, fengu þeir samþyktar sömu breytingamar, eða þá aðrar, er þeir fóru fram á, eins og hv. frsm. (MG) hefir tekið fram. Er nú svo komið, að talsvert ósamræmi er á milli þessara kaupstaðalaga. Jeg hygg málefni þeirra þó ekki svo ólík, að ástæða sje til að halda þessu ósamræmi við, og vil jeg taka undir með hv. frsm. (MG), að ekki sje meiri ástæða til að hafa mismunandi lög fyrir kaupstaðina heldur en sveitirnar. Jeg gæti ímyndað mjer, að einhver sjerákvæði mundi þurfa um þá kaupstaði, sem sjerstaklega stendur á um, svo sem um Siglufjörð, en í aðalatriðunum gætu sömu ákvæði gilt fyrir alla kaupstaðina. En lögin fyrir Reykjavík eru bygð á ólíkum grundvelli, og þyrfti því að halda þeim fyrir utan þessar samræmingartillaunir, svo sem tekið er fram í till.

Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnin geti orðið við þeirri áskorun, sem felst í tillögunni. Jeg býst við, að það mundi þykja viðkunnanlegra að leita álits bæjarstjórnanna um þetta mál, áður en nokkurt frv. er samið, en ef það er gert strax, býst jeg við, að þær hafi nógan tíma til að átta sig á málinu fyrir haustið, svo að stjórnin geti athugað tillögur þeirra og samið frv. fyrir næsta þing.