04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Jakob Möller:

Úr því að umræðurnar eru farnar að snúast um þetta frv. bæjarstjórnar Reykjavíkur, sem þó ekki er á dagskrá í dag, get jeg ekki látið það mál afskiftalaust. Jeg álít það geti ekki verið neitt álitamál, að það eigi að vera samræmi í lögunum um Reykjavík og alla aðra kaupstaði, að því er snertir almenn mannrjettindi, t. d. kosningarrjett o. s. frv. En að því er til gjalda- og tekjustofna hinna einstöku bæjar- og sveitarfjelaga kemur, þá getur beinlínis átt sjerstakt við á hverjum stað, og því ekki hægt að krefjast almennra ákvæða, er gildi um alt landið. T. d. getur það átt vel við, að í Siglufjarðarkaupstað sje tekið útsvar af fólki, sem aðeins kemur þangað til að leita sjer atvinnu um skamma stund, þó að það sje óþarft annarsstaðar. (MG: Þetta á sjer stað nú þegar á nokkrum stöðum á landinu). En nefndin mun hafa rekið sig á, að víða eru til svipuð ákvæði í lögum um aðra kaupstaði og um Reykjavík, og af þeim ástæðum þyrfti ekki að salta frv.

Um lóðaskattinn er það að segja, að það liggur í augum uppi, að hann er rjettmætur bæjarskattur. Það er og því meiri ástæða til þess að leggja þennan skatt á, sem lóðirnar eru verðmætari og vegna þess, að þessar lóðir komast jafnan á fárra manna hendur, en verðmæti þeirra fer eftir þjettbýli og mannfjölda. Lóðaeigendur geta þannig auðgast stórkostlega, án nokkurs eigin tilverknaðar, en aðrir bíða halla af. Því get jeg ekki fundið neinn sanngjarnari gjaldstofn en lóðirnar. Þessu fylgi jeg af því þetta er mín sannfæring, en ekki af því, að jeg hafi til þess umboð kjósenda minna.

Jeg man ekki heldur eftir, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafi lagt útflutningsgjaldsmálið fyrir sína kjósendur. Það er alt annað mál, hversu langt á að ganga með upphæð skattsins, en það raskar ekki rjettmæti hans. Jeg hefði t. d. aldrei samþykt, að hann væri fastákveðinn 2% af matsverði, enda var það þegar tekið fram við flutning málsins, að við flm. myndum bera fram brtt. í þá átt, að bæjarstjórn yrði heimilað að setja skattinn alt að 2%. Því hefði ekkert verið til fyrirstöðu að færa hámarkið niður í 1–1/2%

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gerði og mikið úr eignarnámi, sem þessi lög hefðu í för með sjer; er þess þar að gæta, að skatturinn er alstaðar miðaður við fasteignamatsverð lóða, en eigi sölu- eða gangverð þeirra, eða peningavirðingu, sem ætíð er miklu hærra. En ætti þingið að fara eingöngu eftir því, hvort hitt eða þetta er vinsælt eða óvinsælt sem gjaldstofn til bæjar- og sveitarsjóða, eða hve mörg atkvæði það fái á þjóðmálafundum, hygg jeg, að erfitt mundi veitast að finna góða gjaldstofna, enda hætt við, að sitt sýndist hverjum. Hins vegar eru óvinsældir þessa gjalds vafalaust mest sprottnar af því, að bæjarstjórnin hefir farið of geyst í málið, sett gjaldið óþarflega hátt. í upphafi, í stað þess að byrja lægra og láta það hækka smátt og smátt.

Hitt harma jeg minna, þótt þetta mál verði að bíða nú. Það kemur þá til greina við kosningarnar í vetur til bæjarstjórnar hjer í bænum, sem þá eiga að fara fram, og fá kjósendur þá fult tækifæri til þess að átta sig á því og láta vilja sinn í ljós um það. Hygg jeg, að þá muni deilurnar um þetta mál jafnast af sjálfu sjer.