04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Jón Baldvinsson:

Mjer þótti leitt að heyra yfirlýsingu hv. frsm. allshn. (MG) um það, að nefndin ætli ekki að skila þeim frv. um kaupstaðalöggjöfina, sem hafa nú um hríð legið hjá henni, og þar á meðal frv. um málefni Reykjavíkurkaupstaðar. Finst mjer, að það megi minnast lítið eitt á það mál í sambandi við þessa till., því það snertir allmjög löggjöf allra kaupstaðanna, ekki síst Reykjavíkur.

Hv. frsm. (MG) mintist á nokkur atriði í þeim lögum, sem nauðsyn væri að samræma hvert við annað, og taldi hann af þeim sökum best að vísa þeim málum öllum til stjórnarinnar. Jeg lít aftur á móti svo á, að margt megi nú þegar lagfæra á þessu þingi. Skal jeg til dæmis benda á það, að kosningalöggjöf Reykjavíkur er í sumum atriðum miklu þrengri en annara kaupstaða landsins. Hefði hv. allshn., ef hún hefði haft viljann til þess, vel getað komið fram slíkri breytingu, að löggjöf Reykjavíkur í þessum efnum yrði samræmd löggjöf hinna kaupstaðanna. í öðrum kaupstöðum landsins hafa sömu mennirnir kosningarrjett bæði til Alþingis og bæjarstjórnar. En í Reykjavík er kosningarrjettur til bæjarstjórnar þó nokkru þrengri. Gæti jeg bent á fjölda af gömlu fólki óútsvarsskyldu, sem hefir rjett til alþingiskosninganna, en ekki til bæjarstjórnarkosninganna. Liggur þó í augum uppi, hve þetta er fjarri öllum sanni og fullnauðsyn að breyta því sem fyrst.

Orsökin til þess, að breytt hefir verið skipun niðurjöfnunarnefndarinnar í Reykjavík, er sú heimild, sem er í núgildandi skattalögum, þar sem ákveðið er, að með konunglegri tilskipun megi breyta þessu skipulagi. Og nú er starf niðurjöfnunarnefndar framkvæmt með hliðsjón af framtali til ríkisskattsins. þessi ákvæði í bæjargjaldafrv. ern því komin í framkvæmd.

Svo er um lóðaskattinn, að jeg sje ekki, að það sje neitt á móti því „principi“, sem hv. allshn. hefir tekið upp, að samræma alla kaupstaðalöggjöfina, þótt þetta þing verði við óskum bæjarstjórnarinnar í því efni. Sje jeg ekki ástæðu til þess, að þingið neiti Reykjavík, fremur en öðrum kaupstöðum, um að leggja á slíkan skatt. En á undanförnum þingum hefir 2% lóðaskattur fyrir Akureyrarkaupsað og fyrir Húsavíkurhrepp flogið mótmælalaust í gegn. Það skyldi þá helst vera mótstaða gegn því, að lóðaskatturinn er fastákveðinn 2%. En nefndin hefir ekki þá afsökun lengur, því fram er komin brtt., sem heimilar að leggja á lóðaskatt „alt að 2%“. Og verður það þá á valdi bæjarstjórnarinnar, hve langt verður gengið í þessu efni. Hefir þetta einmitt verið venja til þessa, að láta bæjarstjórnir eins sjálfráðar í slíkum efnum og unt er, enda fer vel á því. Hefir og hæstv. stjórn tjáð sig sömu skoðunar, og þótti mjer vænt um það.

Það hefir nú þegar verið svarað ýmsu, sem hv. samþingismaður minn (JÞ) sagði áðan, og get jeg því farið fljótt yfir sögu. Jeg vil þó víkja því að honum, að mjer finst það óþarfa varkárni af honum að vilja stinga sjer bak við kjósendur í þessu máli. Ef hann er á móti því, þá hefði hann átt að láta málið koma fram, berjast hjer gegn því í hv. deild og fella það, ef hann hefði getað. Það hefði verið hreinlegri aðferð en að liggja á málinu í nefndinni. Jeg hefi enga trú á því, þótt þessi málefni kaupstaðanna verði undirbúin af stjórninni og borin fram af henni síðar, að sú aðferð yrði vænlegri en hin, að kjördæmaþingmennirnir beri þau fram hver fyrir sitt kjördæmi. Undanfarnar stjórnir hafa ekki átt svo upp á háborðið hjá þingunum, að ætla þurfi, að málum sje endilega best borgið, ef þau eru borin fram af stjórninni.

Jeg vildi nú helst vænta þess, að hv. deild feldi þessa till. Og þótt svo færi, að till. yrði samþykt, þá lít jeg svo á, að ekki sje hægt að skorast undan því að láta frv. bæjarstjórnarinnar í Reykjavík koma til atkvæða nú á þinginu. Er það vart hugsanlegt, eftir að hæstv. stjórn hefir lýst yfir því, að þessi þáltill. nái ekki til Reykjavíkurkaupstaðar, að nefndin geti haldið lengur hjá sjer þessum málum. Að vísu get jeg hugsað, að það mál kæmist ekki fram á þessu þingi, en það myndi þó flýta fyrir málinu síðar.

Skal jeg svo ekki lengja umr. meira.