04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Jón Baldvinsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. (MG) sagði um það, að í veðri hefði verið látið vaka, að fram mundi koma lagabálkur um alla löggjöf Reykjavíkurkaupstaðar, þá skal jeg taka það fram, að jeg hefi ekki sagt það. En á hitt hefi jeg bent, að þótt slíkur lagabálkur kæmi fram, þá yrði hann of viðamikill til þess, að hann kæmist allur í gegn á einu þingi. Mundi það, að taka slíkan lagabálk fyrir allan í einu, aðeins verða til að seinka bráðnauðsynlegum umbótum, sem koma mætti fram sjerstökum.

Hv. frsm. (MG) kvað ekkert hóf á útsvarsskyldu þeirri, sem ákveðin væri í frv. Jeg skal játa, að mjer finst þar einnig of langt gengið, enda hefi jeg komið fram með brtt. um það efni. En eitt vil jeg benda hv. þm. á, og það er, að einmitt sveitirnar hafa gefið fordæmið hjer. Í fyrra var sem sje samþykt að leggja útsvar á laxveiði, þótt ekki væri nema einn dag verið að veiðum. Hjer er því komið greinilegt fordæmi fyrir slíkri löggjöf, svo það stenst ekki, sem hv. frsm. (MG) sagði um það, að ekkert væri í lögunum þessu til samjafnaðar.

Þá sagði hv. frsm. (MG), að miklir flokkadrættir væru um þessi mál hjer í Reykjavík. Jeg skal játa, að svo er um mörg mál hjer í bænum. En því vil jeg bæta við, að það er varla eins mikil eining um neitt mál eins og þetta. Það frv., sem hjer er um að ræða, var samþykt á bæjarstjórnarfundi með öllum atkv. gegn einu einasta, og er því vilji bæjarstjórnarinnar svo að segja einróma í þessu máli. Ætti bæjarstjórnin og helst að vita, hvað hentar í þessum efnum, og vænti jeg þess því fastlega, að hv. Alþingi taki nokkurt tillit til vilja hennar í slíkum málum.