17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla aðeins að tala fáein orð með brtt. minni á þskj. 146. enda er þess ekki þörf að fjölyrða mjög um hana. Hún er borin fram samkvæmt ósk Fiskifjelags Íslands, ýmissa útgerðarmanna eystra og nyrðra og ennfremur Langnesinga sjálfra. — Þau rök renna undir beiðni þessa, að Skálaþorpið er fiskiver í allmiklum uppgangi, svo að þaðan róa stundum nær 40 bátar, og er það því bagalegur hnekkir að þurfa að leita langan veg eftir símasambandi. Sími á Skálum mundi og koma að haldi mörgum öðrum fiskiverum austanlands, sem kemur vel að vita um aflabrögð þar, og mundu stundum geta sótt þangað beitu sína, í stað þess að sækja hana alt til Siglufjarðar. Einnig er það mjög mikið hagræði fyrir skip þau. er sigla þurfa norður um Langanes, að hafa síma þarna, því oft er hafís við Langanes, og geta þau fengið fregnir um það á Austfjörðum þegar sími er kominn að Skálum, því að þaðan vita menn miklu ger um ísrek úti fyrir nesinu heldur en frá Þórshöfn eða Gunnólfsvík.

Þetta mál var borið fram á þingi 1919 með þingsályktunartillögu, þar sem skorað var á stjórnina að láta rannsaka símaleið frá Þórshöfn að Skálum. Var þeirri till. vel tekið og rannsókn hefir farið fram. Landssímastjóri er málinu hlyntur. Vænti jeg því, að þessari brtt. minni verði vel tekið, enda er það sanngjarnast og hagkvæmast, og um leið ódýrast, að láta fylgjast að línurnar til Gunnólfsvíkur og Skála.