07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

143. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi reynt að orða þessa till. svo ljóst, að umr. þyrftu ekki.

Er farið fram á í henni, að rannsakað verði, hvernig málinu horfir nú við og hvað óhætt sje að gera, en ekki farið fram á bráðar aðgerðir, nema ef það þykir ráðlegt að rannsókn lokinni En vita þykist jeg, að stjórnin muni komast að þeirri niðurstöðu, að hægt sje að stofna skólann á næsta ári eða mjög bráðlega.

Sá eini kostnaður, sem um er að ræða, er viðbótin við húsið. En miklu mun það verða minni kostnaður en verða mundi hjer, því jeg veit, að Magnús Friðriksson mun gera tilboð, sem yrði að mun ódýrara en smiðir mundu hjer gera.

Kem jeg þá að síðasta lið till. Er þar farið fram á, að íhugað sje, hvort arðurinn sje ekki nægur til rekstrar skólans. Hefi jeg heyrt, að Herdísarsjóðurinn stæði nú á 5% vöxtum, en vafalaust mætti ávaxta hann fyrir 6%.

Enn fremur vil jeg gefa nokkrar upplýsingar um hlunnindi Staðarfells; geri jeg það meðfram af því, að í Ed. var farið mjög óviðeigandi orðum um þessa höfðinglegu gjöf. Var slíkt næsta ómaklegt og illa gert, því að frúin, sem er mjög taugaveikluð, tók sjer það mjög nærri. Er gjöf þessi mjög mikils virði, og það þótt hjónin segðu sig ekki til sveitar á eftir, en fengju þennan lífeyri, sem ekki er meira en eftirgjaldinu nemur, og er þá jörðin gefin. Hlunnindi Staðarfells eru þau, er jeg nú greini: 100 selskinn á 20 kr. = 2000 kr. Spik, kjöt og svið af selnum er meira en fyrir tilkostnaði. 30 pd. dúnn á 15 kr. pd. nettó = 450 kr. Eyjabeit fyrir 30 fjár, 10 kr. fyrir kind = 300 kr. Beit fyrir 6 hesta, 40 kr. fyrir hest = 240 kr. Eru þetta alt hreinar tekjur, því að þeir, er beitina kaupa, flytja sjálfir skepnur sínar til eyjanna. Verða þessar hreinu tekjur samtals 2990 kr.

Túnið á Staðarfelli fóðrar 10 kýr, og auk þess er eyjataða 6 kýrfóður. Útheysslægjur 1000 hestar, fyrir utan slægjur á svonefndum Flekkudal. Girðingar 2500 faðma langar. Og upprekstrarland ágætt á Flekkudal.

Sjá menn af þessu, að svona jarðir eru ekki á hverju strái. Hygg jeg, að ef ráðsmenska væri góð, mundu tekjurnar langdrægt duga til þess að reka skólann. Hefi jeg viljað rekja þetta alt til að sýna, hve illa þeir mæla, sem segja, að þessi góðu hjón, sem gáfu þessa eign sína í sorg sinni eftir efnilegan son, hafi viljað hlunnfara Alþingi með gjöfinni. Er það einnig fallega gert af dætrum þeirra hjóna að samþykkja gjöf þessa, og svifta sig með því öllum arfi. Veit jeg, að hv. deild kann að meta göfuglyndi þetta og mun samþykkja till. mína.