07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

143. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla mjer ekki að mótmæla till. þessari, en jeg vil mótmæla því fyrir hönd Vestfjarða, að Alþingi geti slegið því föstu, ef kvennaskóli verður stofnaður á Staðarfelli, að vextir af Herdísarsjóðnum skuli renna þangað, þvert ofan í arfleiðsluskrá þessarar heiðurskonu. Veit jeg ekki til, að leitað hafi verið álits sýslunefnda við Breiðafjörð eða í Ísafjarðar- og Strandasýslum, sem er þó viðeigandi, því að eins og kunnugt er, var amtsráðinu falið í arfleiðsluskránni að gera till., en nú er það lagt niður og störfum þess skift á milli annara stjórnarvalda, og mun þetta nánast nú heyra undir sýslunefndir fyrnefndra sýslna.

Lít jeg svo á, að óheimilt sje að nota þetta fje til kvennaskóla á Staðarfelli, sem jeg annars vil í engu mótmæla.

Ekki vil jeg heldur í neinu kasta skugga á gjöf þessa nje þann huga, sem á bak við stóð, en það verð jeg að segja, að gott þætti bændum við Breiðafjörð, ef þeir gætu fengið 20 kr. fyrir hvert selskinn. Er það meira en þeir hafa íengið til þessa eða hafa von um að fá.

Sama má segja um verðið á dúninum, 15 kr. nettó. Veit jeg ekki, hvað verða kann í framtíðinni, en á síðastliðnum árum hefir það aldrei verið svo hátt, og ekki er útlit á því, að það verði svo hátt í ár.

Get jeg ekki verið með till. þessari eins og hún er orðuð, því bæði er, að jeg tel Staðarfell ekki hentugan stað fyrir kvennaskóla Vestfjarða, og eins veit jeg, að Herdís heitin mundi fremur hafa kosið hann í Flatey, ef hún mætti nú ráða.