07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

143. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg bjóst ekki við, að svo miklar umræður yrðu um till. þessa, en til skýringar get jeg getið þess, fyrir hv. þm. Barð. (HK), að venjulega selja menn betur dún fyrir sunnan Breiðafjörð en norðan. Fyrir sunnan fjörðinn þekki jeg til þess, að síðastliðið ár var dúnn seldur fyrir 20–24 kr. pundið, en dúnn frá Staðarfelli var seldur á 18 kr. pundið, og þá álít Jeg mjög sparlega áætlað, að reikna með 15 kr. nettó. (HK: Hvar er salan?). Á Íslandi — við Breiðafjörð — en líklega ekki á Barðaströnd. Jeg tel mig ekki hafa reiknað um of að áætla söluverð selskinna 20 kr. stykkið nú, þar eð þau í fyrra seldust fyrir 16 kr., en hafa nú hækkað í verði. Útreikningur minn mun vera gætilegur og nær því sanna, en hefði jeg áætlað tekjumar 2500 kr. í stað 2900 kr., þá hefði jeg nákvæmlega fengið upphæð þá, sem gefendurnir áskildu sjer.

Annars vil jeg þakka hæstv. stjórn fyrir undirtektir hennar undir þetta mál, og að hún hefir tjáð sig fúsa til þess að vinna fyrir framgang þess, en umræðurnar, sem spunnist hafa út af skólastaðnum, undra mig mjög, einmitt sakir þess, að hæstv. stjórn hefir samþykt, að skólinn skuli reistur á Staðarfelli, með því að þiggja það að gjöf, því að gjöfin var gefin með því skilyrði og með það fyrir augum, að Herdísarsjóðnum yrði varið til þess að byggja þar skólann, sem arfleiðsluskrá hennar getur um. Skólinn verður þar ágætlega settur, en í Flatey álít jeg, að ekki geti komið til mála að byggja hann. Herdísarauðurinn er kominn frá Staðarfelli, en nú er jörðin sjálf gefin, og tel jeg því mjög gott, að hvorttveggja skuli geta farið saman, jörðin, sem skólinn er bygður á, og peningamir, sem hann er reistur fyrir.

Jeg kannast við að hafa áður haldið fram Ólafsdal sem heppilegu skólasetri og að jeg gekst fyrir því, að stjórninni yrði veitt heimild, sem hún hefir enn, til kaupa þar; en kaup voru ekki gengin saman þegar Staðarfell var gefið. En með því nú að þiggja Staðarfell er ákveðinn staður skólans, og áreiðanlegt er það, að verði skólinn ekki settur á Staðarfelli, þá verður hæstv. landsstjórn að skila því aftur.