14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Stefán Stefánsson:

Jeg get búist við, að hv. þingdeildarmenn hafi tekið eftir því og þyki það máske undarlegt, að jeg er sá einasti af Framsóknarflokksmönnum, sem ekki er flytjandi þessara rannsóknartillagna, sem bornar eru fram í báðum deildum á hendur Íslandsbanka. Því fremur kann þetta að þykja undarlegt, þar sem tillögur voru samþyktar á þingmálafundum í mínu kjördæmi, Eyjafirði um það, að nauðsyn bæri til þess, að þingið fengi sem nánasta vitneskju um hag bankans, en þó sjerstaklega var tekið fram um veð þau, sem ríkið hefði fyrir lánveitingu til hans.

Út af þessu vil jeg taka það fram, að þegar jeg ásamt flokksbræðrum mínum óskaði þess, að um þetta mál yrði talað af öllum þingmönnum við stjórnina á lokuðum þingfundi, þá var það mín meining með þeim fundi, að sem allra minstur hávaði yrði út af þessu máli, — að alt þingið ætti þar tal við stjórnina og rjeði þar fram úr því, hvernig þessara nauðsynlegu upplýsinga skyldi leitað. Þetta samtal eða samvinna við stjórnina um framkvæmd málsins áleit jeg að gæti orðið friðsamlegt. Jeg leit svo á, að það, sem hlyti að vinnast með þeim fundi, yrði það, að ríkisstjórninni yrði falið að annast um, að sem nákvæmust athugun færi fram — í kyrþey — á fjárhagsástandi bankans, þó einkum tryggingum þeim, sem ríkið hefði frá bankanum. Þessi athugun varð auðvitað að miðast að nokkru leyti við þann takmarkaða þingtíma, sem naumast leyfði hana svo nákvæma sem sumir hefðu helst kosið.

Þessar samkomulagsvonir mínar um fundinn rættust því miður ekki, og hvar sem aðalorsökin liggur til þeirra friðslita, þá tel jeg illa farið, að svo fór sem þá fór.

Nú hefir þetta mál enn verið upp tekið, en allmjög á annan veg en áður, og það á þann veg, sem mjer ekki líkar alls kostar, þótt flokksbræðrum mínum þyki þessi kostur vænstur.

Jeg hefi sem sje nauðalitla trú á því, að sú þingnefnd, sem ráðgert er að kjósa samkvæmt þessari tillögu, — nefnd, sem kemur alókunnug inn í bankann —, að hún hafi nokkru hæfilegri tíma — með öðrum þingstörfum — til þess að geta gefið skýrslu, sem verulega væri á að byggja, eftir ca. þriggja vikna tíma. Já, mjer finst, að þeir góðu menn yrðu ekki öfundsverðir af starfinu; jeg hygg, að það væri meiri vandi en vegsemd. Þeir tækju, að mjer skilst, á sig þá siðferðislegu ábyrgð að geta sagt um það afdráttarlaust, hvar komið væri með tryggingar bankans, tryggingar, sem þeir hefðu þó — að mínu áliti — alls ónógan þingtíma til að gera lokarannsóknir á. Með öðrum orðum, mjer er ekki ljóst, hversu mikið yrði lagt upp úr þessari skýrslu, sem slík nefnd gæfi. En legðu menn alment lítið upp úr frásögn nefndarinnar, væri til lítils unnið.

En svo er önnur hlið þessa máls, hvernig á þessa nefndarkosningu og nefndarstörf mundi verða litið í útlöndum, þar sem bankinn hefir sín viðskifti; jeg hefi dálítinn geig af þessari hlið málsins, að þetta tiltæki eða verk þingsins mundi vekja óhug eða vantraust á bankanum og torvelda viðskifti hans, sem þá gæti leitt til meira verðfalls á íslensku krónunni. Þetta virðist mjer það alvarlegasta, sem kynni að geta leitt af þessu rannsóknarnefndarstarfi, og jeg vil ekki óneyddur taka á mína ábyrgð áhættuna.

En þá vil jeg minnast á leið, sem mjer sýnist, og óefað ýmsum fleiri hv. þm., líklegri til þess, að á henni megi byggja, að líkindum miklu fremur en þeirri, sem tillagan ræður til, og hefir þann mjög verulega kost, að hvað bankann eða sambönd hans snertir, væri ekkert að óttast, og það er sú leið, að stjórnin með aðstoð og samstarfi bankastjóranna vinni að þessari athugun og leggi fram í þinglok skýrslu um tryggingarafstöðu bankans til ríkissjóðs.

Á þessa leið hefi jeg minst við marga af hv. þdm., sjerstaklega flokksbræður mína, og verður ekki sagt annað en sú leið sje áhættulítil eða áhættulaus.

Nú vitum við það, allir þingmenn, að þessa getum við krafist af stjórninni og hún af bankastjórunum. Kemur þá fram sú spurning, hvort ríkisstjórnin sje þessari leið mótfallin, svo að þess vegna verði að taka þá leiðina, sem óneitanlega er tvísýnni, óaðgengilegri. Um stjórnarleiðina í þessu máli hefi jeg þegar rætt við einn ráðherrann, hæstv. fjrh. (MagnJ). Kvaðst hann mundu geta hlutast til um, að þessi skýrsla gæti orðið gefin undir þinglokin, því bankastjórarnir væru þegar farnir að vinna að henni.

Þegar jeg fjekk þessi góðu svör, gat jeg vænst þess, að að þessu ráði yrði horfið, því satt að segja þótti mjer vænkast málið fyrir okkar flokki, þar sem hann átti frumkvæði að því í þinginu, að sem glöggust grein fengist á afstöðu bankans gagnvart ríkinu eða lánveitingum þess til hans. Auk þess virðist það liggja í augum uppi, að slík skýrsla yrði miklu nákvæmari og áreiðanlegri en þekking sú, sem nefnd, ókunnug bankanum, gæti aflað sjer með nokkurra daga rannsókn.

Annars sýnist mjer ýmislegt benda til þess, að bankinn sje að rakna við úr rotinu, þar sem hann er nú tekinn að yfirfæra eftir þörfum manna háar upphæðir við útlönd, og annað atriði, sem ekki siður bendir á, að hann sje trygg stofnun, er það, að þegar er gerður samningur milli bankanna (Íslandsbanka og Landsbankans) um það, að Landsbankinn leggur inn í Íslandsbanka og hefir þegar lagt stórfje — jeg hygg um 11/2 milj. kr. — og ríkisstjórnin veitt fult samþykki sitt. Er þetta sönnun fyrir því, að bankinn er alls ekki eins hörmulega staddur og margir vilja álíta, því Landsbankastjórninni er best allra óviðkomandi manna trúandi til þess að vita, hvað tryggilegt er í þessu falli. Segi jeg ekki þetta í því skyni að draga úr eða telja óþarfa þá skýrslu, sem jeg hefi á minst, eða að jeg ætli að fara að bera sjerstakt lof á Íslandsbanka; nei, engan veginn; jeg var á móti stofnun hans í fyrstu, og eins mótfallinn sumum þeim hlunnindum, er Alþingi síðan hefir veitt honum. En þessi atriði benda ótvírætt á það, að hjer er ekki svo mikill voði á ferðum, að leggja beri út í þann tvísýna ávinning að setja á bankann opinbera rannsókn, þegar þess er gætt, að við höfum aðra leið, sem stendur opin fyrir.

Að fleiri en jeg líta þannig á þetta mál, sýnir brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Við þá tillögu er þó það athugavert, að hv. fjárhagsnefnd einni er ætluð skýrslan, en hún ætti að liggja öllum þingmönnum til sýnis. Er það sjálfsögð krafa, að hv. þm. gefist kostur á að athuga skýrsluna, svo þeir síðar geti skýrt kjósendum sínum frá, að loknu þingi, hvernig tryggingunum sje varið, og þá hag bankans, eftir því sem kostur er.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta nú, en vegna afstöðu minnar vildi jeg segja þessi fáu orð.