14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3112)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Þorláksson:

í tillögu þeirri til þingsályktunar, sem 9 hv. þm. úr Framsóknarflokknum hafa borið fram, á þskj. 298, um skipun nefndar til að athuga fjárhagsaðstöðu Íslandsbanka gagnvart ríkinu í sambandi við enska lánið, felst það, að sú nefnd kynni sjer, svo sem unt er, fjárhag bankans. Hún á með öðrum orðum að vera rannsóknarnefnd á bankann, og er þetta beint framhald af tilraunum þeim, sem gerðar hafa verið af ýmsum mönnum, bæði utan þings og innan, til þess að rýra traustið á Íslandsbanka bæði hjer á landi og erlendis.

Til þess að skýra afstöðu mína og annara þeirra, sem óska, að báðir bankarnir hjer njóti sem mests trausts og verði sem færastir um að fullnægja sínu mikilsverða verkefni í þjóðfjelaginu, því verkefni að leggja atvinnuvegum landsins til stofnfje og starfsfje, verð jeg að rifja upp sögulegan aðdraganda þessa máls.

Á stríðsárunum og næstu árunum eftir stríðið, frá 1914 til sumarsins 1920, hækkaði vöruverð í heiminum svo stórkostlega, að slíks voru engin dæmi síðustu 100 árin. Þessi verðhækkun hafði í för með sjer mikla aukningu á seðlaveltunni í öllum löndum, og mikla dýrtíð hjer í landi sem annarsstaðar. Svo byrjaði verðfallið og varð að sama skapi stórfelt sem verðhækkunin áður, ekki síst á íslenskum afurðum. Af verðfallinu leiddi auðvitað, að allir eigendur vörubirgða urðu fyrir stórkostlegu tapi hjer á landi, þó einkanlega eigendur íslensku afurðanna, útflytjendurnir. Uppgangstíminn hafði aukið mjög getu landsmanna til þess að taka verslunina, bæði innflutning og útflutning, í sínar hendur, og þegar kreppan skall á hjer, snemma árs 1920, var óvenjulega mikið af afurðum fyrra árs óselt úr landinu, var enn þá í eign framleiðenda og innlendra útflytjenda. Svo skall verðlækkunin yfir þá, og vörumar seldust seint og fyrir afarlágt verð, sumar urðu óseljanlegar og ónýttust, svo sem mikið af íslenska síldaraflanum frá 1919. Um sömu mundir urðu landsmenn að greiða til útlanda stórfje fyrir aukningu á skipastól landsins, — hjer voru í ársbyrjun 1919 einir 9 botnvörpungar, en voru um 30 í árslok 1921. Af þessu öllu varð skortur á erlendum gjaldeyri, og eftir að reynt hafði verið um hríð að halda íslenskri krónu í jafngengi við danska krónu, með því að takmarka sölu á erlendum gjaldeyri, neyddust menn til að hverfa frá því ráði og viðurkenna lággengi á íslenskri krónu. Verðfall afurðanna hjelt áfram, og varð aftur stórtap á sölu mikils hluta afurðanna frá 1920.

það var óhjákvæmilegt, að nokkur hluti þessa stórkostlega þjóðartaps lenti á bönkunum, hjer eins og annarsstaðar. Ýmsir menn hafa gerst til að lasta bankana, og þá einkum Íslandsbanka, fyrir þetta, og kent um slæmri bankastjórn. En slíkt lýsir algerðu skilningsleysi á verkefni bankanna innan þjóðfjelagsins. Báðum bönkunum hjer eru með lögum veitt mjög mikilsverð rjettindi, þar á meðal eru þeir lausir við alla venjulega skatta, og þeim er að öðru leyti gefin aðstaða til þess, að í góðæri og venjulegu árferði geta þeir verið og eru mestu gróðastofnanir á landinu. Þeir geta bókstaflega rakað saman fje — og gera það — úr vösum landsmanna vitanlega, jafnframt því sem þeir halda atvinnuvegum landsins uppi með því að leggja þeim til fjármagn. Til endurgjalds fyrir þessa aðstöðu og þennan gróða ber þeim vitanlega fyrst og fremst skylda til að taka á sig hæfilegan hluta af tapi þjóðarheildarinnar á fjárkrepputímum. Það er auðvitað, að hvert einstakt tap lendir fyrst og fremst á þeim einstaklingi þjóðfjelagsins, sem beinlínis verður fyrir því. Hann verður að gjalda það alt, ef hann getur. Bankarnir verða samkvæmt hlutarins eðli einatt stærstu skuldheimtumennirnir, og hafi einstaklingurinn með ráðleysi eða á annan hátt sýnt það, að hann sje ekki fær um að reka atvinnu sína, þá er ekkert út á það að setja, þó að bankarnir gangi svo hart að honum, að hann verði gjaldþrota og atvinnutæki hans seld öðrum mönnum í hendur. öðru máli er að gegna um þá einstaklinga, sem hafa sýnt hæfileika til að veita atvinnu sinni forstöðu, en hafa komist í kröggur sökum þeirra viðburða einna, sem þeim voru ósjálfráðir og óviðráðanlegir. Það er ekki í þágu þjóðfjelagsins, að slíkir menn sjeu hlífðarlaust slegnir niður. Það er miklu fremur skylda bankanna gagnvart þjóðfjelaginu að ganga ekki nær þeim en svo, að þeir haldi starfslöngun sinni og umráðum yfir einhverju því fjármagni, sem þeim er nauðsynlegt til þess að þeir geti rekið atvinnu áfram og þjóðfjelagið haldið áfram að njóta góðs af reynslu þeirra og hæfileikum. Einkanlega á þetta við um fáment þjóðfjelag eins og okkar, þar sem um fáa menn er að velja til forstöðu áhættumikilla og vandasamra, en þjóðnauðsynlegra atvinnufyrirtækja.

Báðir bankarnir hjer hafa skilið rjett þetta verkefni sitt á krepputímanum. Báðir hafa þeir tekið á sig sinn hluta af tapi þjóðarheildarinnar, og báðir gætt varúðar um að kollvarpa mönnum og fyrirtækjum, sem lent hafa í eðlilegum og afsakanlegum kröggum. Íslandsbanki hefir miklu frekar en Landsbankinn haft á hendi stuðning hins áhættusamari og fjárfrekari af aðalatvinnuvegum landsins, sem er sjávarútvegurinn og verslunin með afurðir hans, og það er þess vegna eðlilegt, að tap hans hefir orðið nokkru meira en tap Landsbankans, eftir því sem vitað verður, en Landsbankinn hefir engan veginn farið varhluta af tapinu, og að tiltölu við fjármagn það, sem hvor bankinn fyrir sig hefir haft í sjávarútvegi og verslun með sjávarafurðir, hefir tap Landsbankans líklega orðið meira en tap Íslandsbanka.

Enn verð jeg að draga fram tvö atriði, til þess að þetta tap bankanna sjáist í rjettu ljósi. Fyrst það, sem áður hefir sagt hv. þm. Dala.(BJ) hjer í deildinni, og hermt alveg rjett, að svo að segja alt hið tapaða fje bankanna hefir lent í vösum landsmanna sjálfra, einkanlega verkalýðsins og hinna smærri atvinnurekenda. Árin 1919 og 1920 var verkalýð sjávarútvegsins greitt miklu hærra kaup en samsvaraði því verði, er aflinn seldist fyrir að lokum. Og allur þorri hinna smærri útgerðarmanna mun að minsta kosti 1919 hafa selt aflann úr sinni hendi fyrir hærra verð en framleiðslukostnaðurinn nam. Mismuninn á kaupinu og hagnað framleiðenda hafa útflytjendurnir greitt að miklu leyti, og sumir eytt til þess aleigu sinni, en bankarnir að nokkru leyti, með tapi og uppgjöf nokkurs þess fjár, er þeir höfðu lánað útflytjendunum. Þessi rás viðburðanna hefir dreift varasjóðum bankanna út í vasa almennings, og ættu bankamir síst að sæta ámælum fyrir þetta af hálfu þeirra manna, sem tjá sig andvíga allri auðsöfnun. En af þessu leiðir, að sjálft tap bankanna, eða það, að bankarnir tóku nokkuð af tapinu á sínar herðar, hefir ekki rýrt þjóðareignina. Þjóðartapið stafar af verðfallinu, og hefði orðið jafnmikið, þótt bankarnir hefðu ekki borið neitt af því.

Hitt atriðið, sem líta verður á, er það, hvort bankatapið hjer á landi hafi orðið tiltölulega meira en í öðrum þeim löndum, sem unt er að bera saman við okkar land, og hygg jeg, að svo sje ekki. Fullkomnar tölur þessu til sönnunar get jeg ekki lagt fram. Það er kunnugt, að danskir bankar hafa tapað samtals yfir 400 milj. kr., sænskir bankar meiru, enda er landið fólksfleira. Tap bankanna hjer er, eftir því sem næst verður komist, um 10 milj. kr., og er því að minsta kosti ekki meira að tiltölu við fólksfjölda en bankatapið í Danmörku, líklega minna.

Nú er Íslandsbanki eign hlutafjelags, svo sem kunnugt er, og meiri hluti stofnfjárins eign útlendinga. Þessi tilhögun hefir frá öndverðu verið þyrnir í augum þeirra manna, sem helst vilja koma öllum atvinnurekstri í hendur hins opinbera. Þegar fjárkreppan dundi yfir og það vitnaðist, að þessi banki hefði orðið fyrir nokkuð miklu tapi, sáu þessir menn sjer leik á borði. Það vöknuðu hjá þeim vonir um, að svo mundi mega veikla bankann, að hann yrði annaðhvort að gefast upp og hætta eða ganga inn undir yfirráð ríkisins. Aðferðin átti að vera sú, að vekja tortrygni gegn bankanum, gera menn hrædda um, að hann mundi ekki standast tapið, og fá með þessu móti almenning og skiftavini bankans til að taka innlánsfje sitt út úr honum. Í þessu skyni var hafin rógburðarherferð gegn bankanum í tveim blöðum hjer í bænum, sem bæði eru og voru þá í höndum sömu klíkunnar, annað ætlað almenningi hjer í bænum og við sjávarsíðuna og hitt ætlað sveitamönnum. Auðvitað var ekki sparað að láta líka berast út meðal almennings munnlegar ádrepur sama efnis, í sama tilgangi og úr sömu átt. Bankinn stóð varnarlaus gegn þessum rógi, eins og hver banki mundi gera, er eins stæði á, og hann hafði nokkur áhrif á hag bankans um eitt skeið. Eftir reikningum bankans og öðrum gögnum virðast hafa verið teknar út um 4 milj. kr. árið 1920 eftir að herferðin hófst og áður en almenningur hafði áttað sig á því, hvað hjer var á ferðinni, og nam þetta nálægt 1/6 af þáverandi innlánsfje í bankanum. Bankinn dró að lokum ritstjóra annars blaðsins fyrir dómarann, og hefir sá ritstjóri (Ólafur Friðriksson) nú verið dæmdur í sektir og 20 þús. kr. skaðabætur til bankans fyrir hæstarjetti, svo sem kunnugt er. Hitt blaðið hefir ekki verið lögsótt, enda mun það hafa hagað orðum sínum eitthvað ofurlítið gætilegar, og lesendur þess yfirleitt í meiri fjarlægð frá bankanum, og þess vegna ekki átt þar innlánsfje til muna, en bergmálið af rógburði þess endurómaði hjer í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Sem betur fór, mistókst þessi herferð að miklu leyti; almenningur áttaði sig á því, hvað hjer var á ferðinni, og bankinn stóðst árásina.

Rógur þessi hefir þó orðið til þess, að ýmsir menn munu gera sjer rangar hugmyndir um tap bankanna og fjárhagsaðstöðu þeirra. Náttúrlega verður að tala með mikilli gætni um þessi mál, en jeg lít svo á, að nú sje versta kreppan um garð gengin, og að ekki sje nema gott, að almenningur fái sem rjettasta hugmynd af því, sem gerst hefir.

Það vill nú svo vel til, að fyrir liggur skýrsla um tap Íslandsbanka til ársloka 1921, gerð eftir ítarlega rannsókn hæfra og óvilhallra manna samkvæmt ákvörðun þingsins 1921. Nefnd þessi átti að meta hlutabrjef bankans, sem kunnugt er, með það fyrir augum, að landssjóður keypti hluti í bankanum. í nefndinni voru þeir Björn Kristjánsson alþm. og þorsteinn þorsteinsson hagstofustjóri, kosnir af Alþingi, framkvæmdarstjórarnir Ágúst Flygenring og Ólafur Benjamínsson, kosnir af hluthöfum bankans, og Eiríkur prófessor Briem, útnefndur af hæstarjetti. Þessi nefnd rannsakaði bæði aðalbankann og útibúin, tryggingar fyrir öllum, lánum og allan hag bankans, og varð niðurstaða hennar sú, að hlutabrjef bankans væru 91 kr. virði fyrir hverjar 100 kr. ákvæðisverðs. Jeg hefi fengið leyfi bankastjórnar Íslandsbanka til að skýra nokkru nákvæmar frá niðurstöðu nefndarinnar, eftir skýrslu hennar, sem dagsett er 22. febr. 1922, og skal jeg þá jafnframt gera grein fyrir því, hvernig hagur bankans stendur eftir reikningi hans í árslokin 1922.

Nefndin áætlar tap bankans á lánum og víxlum, bæði við aðalbankann og útibúin, 4855000 kr. Þar leggur hún ofan á fyrir ófyrirsjeðu tapi, óútkljáðum kröfum og öðrum halla, sem hún hefir ekki reiknað sjerstaklega, 575000 kr. Samtals 5430000 kr. Hjer við má bæta tapi, sem bankinn var búinn að afskrifa áður en nefndin tók til starfa, 1200000 kr. Tapið samtals 6630000 kr.

Enn fremur áætlar nefndin gengismun bankanum í óhag á enska láninu og gengismun bankanum í hag á erlendum innieignum hans, og nokkra smærri pósta svipaðs eðlis tekur hún inn í mat sitt, og verður útkoman sú, að þessi gengismunur m. m. nemi bankanum í óhag 1183658 kr., og er þá enska lánið alt reiknað á 27 kr. sterlingspundið. Þessi upphæð er alt annars eðlis en tapið á hinum einstöku lánum, af því að enska lánið er afborgunarlán, tekið til 30 ára. Er fyrst og fremst talið ólíklegt, að meðalgengi íslenskrar krónu verði svo lágt á þessu tímabili, að samsvari 27 kr. á hvert sterlingspund, og í öðru lagi kemur gengismunurinn ekki til útborgunar fyrir bankann fyr en jafnóðum og lánið afborgast, þ. e. hann dreifist á 30 ár, og er eðlilegast að telja hann með öðrum árlegum útgjöldum bankans á þessu tímabili, er greiðist af hvers árs tekjum, og engan veginn nauðsynlegt að leggja upphæðina til hliðar fyrirfram eða draga hana út úr veltu bankans eins og hinar töpuðu fjárhæðir.

Þá er að líta á, hvað bankinn hefir haft og hefir nú til að standast þetta tap. Á reikningi bankans 1920 voru afskrifaðar 1200000 kr., sem jeg nefndi áður. Til þess að mæta því tapi, sem þá var eftir, og nefndin áætlaði, hefir bankinn:

Afskrifað árið 1921...... kr. 3893270,00

Varasjóður ...... — 2313015,00

Af arði ársins 1922 ........ — 1157048,00

Samtals kr. 7363333,00

En tapið áætlaði nefndin kr. 5430000,00

Mismunur kr. 1933333,00

Af arði ársins 1922 hefi jeg hjer einungis talið þann hluta, sem bankastjórnin tjáist leggja til, að verði varið til afskriftar, eða lagt til hliðar fyrir tapi. Eftir því verður þá raunverulegur varasjóður tæpar 2 milj. kr., eftir að tap það, sem nefndin áætlaði, er að fullu greitt.

Í þessum reikningi hefi jeg ekki tekið gengismuninn á enska láninu með bankanum í óhag. Sje það gert, verður líka að taka gengismuninn á gulli því, sem er bankans eign, honum í hag. Bankinn á 21/4 milj. kr. í skandinaviskum gullkrónum og gulldollurum, sem reiknaðir eru á kr. 3,75. Verð gullkrónu er sem stendur hjer um bil nákvæmlega 12/3 íslenskrar pappírskrónu, og er þá gengismunurinn á gulleigninni 12/2milj. kr., bankanum í hag, eða hærri en sú gengismunarupphæð bankanum í óhag, sem jeg hefi slept. Hvernig sem reiknað er, á bankinn því um 2 milj. kr. í varasjóði. Hjer við bætist svo hlutafjeð, 41/2 milj. kr., sem einnig er til tryggingar fyrir öllum skuldbindingum bankans. Hjá Íslandsbanka stendur því 61/2 milj. króna sem hrein eign til tryggingar gegn tapi, umfram það tap, sem nefndin áætlaði.

Jeg gat þess áðan, að Landsbankinn hefði líka tapað, en um það er engin opinber skýrsla til nje neitt mat, hliðstætt nefndarmatinu um Íslandsbanka. í reikningum sínum hefir Landsbankinn lagt til hliðar 450 þús. kr. fyrir tapi hvort árið, 1920 og 1921, og auk þess afskrifað afföll á sínum hluta enska lánsins og gengismun á því, samtals með 760 þús. kr., sem líka má skoða sem lagðar til hliðar fyrir tapi. Eru þetta samtals 1660000 kr. Hjer við má bæta varasjóði bankans, kr. 3345019,00 og ágóða af bankarekstrinum 1922, sem jeg veit ekki hver er, en er líklega á aðra miljón króna, og má því ætla, að Landsbankinn hafi um eða yfir 6 milj. kr. til að mæta sínu tapi. Og fráleitt er tap hans nándar nærri svo mikið. Nákunnugur maður hefir áætlað tap á einstökum lánveitingum hans milli 3 og 31/2 milj. kr., og væri þá raunverulegur varasjóður hans um 3 miljónir. Hjer við bætist svo innskotsfje landssjóðs, sem er orðið eign bankans, og nemur nú um 1 milj. kr., og standa þá um 4 milj. kr. sem hrein eign í þessum bankanum til tryggingar gegn tapi, umfram það, sem hjer var giskað á, að mundi vera.

það er nú öllum mönnum vitanlegt, að á árinu 1922 hefir ekki gerst neitt það, sem getur hafa veikt fjárhagsaðstöðu bankanna. Afurðir landsins hafa selst öllum vonum fremur, og yfir höfuð hefir verið fremur árgæska en hitt, til sveita og sjávar. Það er því ekki sjáanleg nein ástæða til að grípa nú til svo algerlega óvenjulegs örþrifaráðs sem það er að skipa þingnefnd til að rannsaka „fjárhagsaðstöðu“, þ. e. efnahag þess bankans, sem rannsakaður var af trúnaðarmönnum fyrir ári síðan. Og ef öðruvísi stæði á, ef einhver ástæða væri til að óttast um hag annarshvors bankans, þá væri þessi aðferð alveg óverjandi, og slík tillaga, hvort sem hún er borin fram opinberlega eða á lokuðum fundi, er ekkert annað en auglýsing frá flutningsmönnunum um það, að þeir sjeu ekki færir um að fást við bankamál. Aðalstarfsfje hvers banka er innlánsfjeð, en það fá bankamir því aðeins, að þeir njóti trausts almennings. Alt, sem rýrir traustið, er bönkunum skaðvænlegt. Ákvörðun um opinbera og óvenjulega rannsókn á efnahag banka mundi venjulega hafa það í för með sjer, að bankinn yrði að loka samstundis; innlánsfjeð mundi annars verða rífið út. Að ekki fer svona hjer, þó að slík tillaga komi fram, stafar af því, að öllum er ljóst, af hvaða toga þetta er spunnið. Menn vita, að þótt heiðarlegir þingmenn Framsóknarflokksins hafi gerst til þess að setja nöfn sín undir tillöguna, þá eru upptök hennar runnin frá sömu rógburðarklíkunni hjer í bænum, sem stýrir þeim tveim blöðum, er jeg gat um, og að þessum hv. þm. hefir það eitt orðið á, að láta teygja sig of langt í þessu máli, þótt það sje raunar vitanlegt, að þeir hafi ekki fengist til að fara eins langt út á brautina og hvatamenn þeirra hafa viljað. Þess vegna er ekki svo mjög hætt við, að slík tillaga vinni bankanum tjón hjer. En utanlands er alt öðru máli að gegna. Þar skilur enginn maður, að slíkt sje gert nema í örþrifum, ef algert hrun er á ferðinni. Þar mundi samþykt slíkrar tillögu, sem þessir hv. 9 þingmenn bera fram, verða til þess að gerspilla því trausti, sem bankinn er nú hröðum fetum að vinna sjer aftur, og þar með spilla álitinu á fjárhag landsins og landsmanna og lækka um nauðsyn fram gengi íslenskrar krónu.

Að því leyti, sem tillagan fer fram á, að skipuð verði rannsóknarnefnd á bankann, er hún háskagripur, og ef ekki stæði annað í henni, væri sjálfsagt að fella hana. Ef rannsókn þarf að gera á hag banka eða sparisjóðs, þá á að gera slíka rannsókn í kyrþey, án þess að um hana vitnist, eða nota sjerstakt tilefni, sem ekki gefur ástæðu til tortrygni, eins og það, er meta þurfti hlutabrjef Íslandsbanka vegna væntanlegrar hlutafjáraukningar frá landssjóði.

En í tillögunni felst meira. Bankinn hefir, sem kunnugt er, fengið hluta af enska láninu, 280 þús. sterlingspund, að láni frá landssjóði, og sett veð fyrir því láni. Nú er það auðvitað skylda fjármálaráðherrans að gæta þess, að tryggingin fyrir þessu láni, eins og fyrir öðrum lánum úr landssjóði, sje nægileg og í góðu lagi, úr því að trygging var heimtuð og sett fyrir láninu. Í tillögunni er farið fram á, að þessi trygging sje sjerstaklega rannsökuð. Í þessu felst yfirIýsing um, að tillögumenn vantreysti landsstjórninni, og þá sjerstaklega fjármálaráðherranum, til að rækja skyldu sína í þessu efni. Nú er tillagan borin fram af aðalstuðningsflokki stjórnarinnar, og fjármálaráðherrann er flokksmaður í þeim flokki. þegar þessir nánustu pólitísku vandamenn stjórnarinnar, og sjerstaklega fjármálaráðherrans, sýna honum slíkt vantraust, þá hefi jeg enga ástæðu til að sýna honum meira traust, og ber því fram brtt. á þskj. 340, þess efnis, að landsstjórnin leggi fyrir fjárhagsnefnd fullkomna og nákvæma skýrslu um tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu. Það er öldungis óþarft að kjósa sjerstaka nefnd til þess að taka við þessari skýrslu, þar sem til er fastanefnd í deildinni, sem einmitt hefir það verkefni sjerstaklega að hafa gætur á fjárhag ríkissjóðs og annast þau málefni, er hann varða sjerstaklega, svo sem tryggingar fyrir lánum þeim, er veitt hafa verið úr ríkissjóði.

Till. mín hermir ekki, hvort fjárhagsnefnd eigi, að fenginni þessari skýrslu, að birta hana hv. deild. Það er á valdi nefndarinnar, og vitanlega hefir nefndin öll, eða meiri eða minni hluti hennar, bæði rjett og skyldu til að gefa deildinni skýrslu um þetta mál, ef hún álítur, að það skifti máli fyrir hag þjóðarinnar, að það sje gert. Þetta vil jeg taka fram í tilefni af athugasemd hv. 1. þm. Eyf. (StSt).

Nú vil jeg bæta því við, að það er því síður ástæða til að skipa rannsóknarnefnd á þennan banka, sem nýlega hefir verið ákveðið, með hagsmuni ríkissjóðs fyrir augum, að stjórnin skuli skipa meiri hluta bankastjórnarinnar, og eru nú 2 af 3 bankastjórunum stjórnkjörnir. — Staða þessara 2 bankastjóra er auðvitað þannig, að þeim ber eins mikil skylda til að líta á hag ríkissjóðs sem bankans og hluthafa hans. Sá stjórnarflokkur, er bæri traust til stjórnar sinnar, eða vildi láta það í ljós, mundi telja fullnægjandi að eiga aðgang að stjórninni, en hún aftur að bankastjórum þeim, er hún hefir skipað, til að fá allar skýrslur um hag bankans, þar við bætist, að í bankaráðinu eru 3 fulltrúar af 7 kjörnir af Alþingi, en hinn 4., oddamaðurinn, er sjálfur forsætisráðherra. Einnig að því er snertir yfirstjórn bankans hefir stjórn og þing fullan aðgang að því, að fá vitneskju um allan hag hans og þingið fulla kröfu um það, að í yfirstjórninni sje hagsmuna ríkisins gætt í fullum mæli, engu síður en hluthafa. Af þessu leiðir, að engin ástæða er til að skipa sjerstaka nefnd, þó að menn vildu halda því fram að heimta allar þessar upplýsingar til handa þinginu.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg minnast á það, að mönnum hefir oft fundist á krepputímanum, að ekki væri eins góð samvinna á milli bankastjórnanna í Landsbankanum og Íslandsbanka og vera bæri og þörf landsins krefði. Jeg ætla ekki að þessu sinni að fara að rifja upp neitt af því, sem á hefir brostið í þessu efni, eða gera neinar ásakanir í garð einstakra bankastjóra í þessa átt. — Nú hafa orðið alger mannaskifti í stjórn Íslandsbanka, og nokkur mannaskifti í stjórn Landsbankans ekki alls fyrir löngu. Og nú lítur út fyrir, að samvinna milli bankanna sje orðin stórum betri en verið hefir, hvort sem það er mannaskiftunum eða öðru að þakka. Eins og menn vita, á Íslandsbanki nú að draga inn seðlafúlgu sína smám saman, 1 milj. kr. á ári fyrst um sinn, og er svo til ætlast, að landsstjórnin og Landsbankinn annist um útgáfu nýrra seðla í skarðið, ef þörf er fyrir meiri seðlaumferð en þá, sem Íslandsbanki má hafa á hverjum tíma. Nú hafa báðir bankarnir haldið mjög að sjer hendinni um útlán undanfarið, en afborganir eldri lána vitanlega goldist inn í bankana á eðlilegan hátt. Íslandsbanki hefir notað sjer þetta til að minka seðlaumferðina og (einkum síðan um síðastliðin áramót) til þess að koma sjer upp nægilega stórum sjóði af handbærum peningum, sem hann þarf að hafa nú eftir að seðlaútgáfurjettur hans er takmarkaður, en þurfti ekki að hafa meðan hann ávalt gat gefið út nýja seðla, ef fyrirliggjandi sjóður hrökk ekki. Hjá Landsbankanum varð þetta íhald um útlán til þess, að honum safnaðist meira fje í sjóð en eðlilegt var að láta liggja þar óarðberandi, og nam að sögn um 2 milj. kr. um og eftir áramótin síðustu. Þegar vertíðin hófst og útgerðarmenn þurftu að fá sín venjulegu rekstrarlán, vildi Íslandsbanki ekki auka seðlaveltu sína með útgáfu nýrra seðla, því að hann þóttist ekki viss um að geta þá náð þeim seðlum inn aftur, svo að veltan í október næstkomandi færi ekki fram úr lögmæltum 7 milj. kr. Enda lá ekki annað hendi nær en að það fje, sem lá arðlaust í fjárhirslu Landsbankans, væri notað í þessu skyni. Eftir talsvert þóf er nú samningur á kominn milli bankanna með samþykki landsstjórnarinnar um þessi efni, og eru aðalatriði hans þau, að Landsbankinn leggur það fje, sem hann hefir aflögum, á hlaupareikning í Íslandsbanka, og er tilætlunin, að Íslandsbanki veiti síðan rekstrarlán til útgerðarinnar sem að undanförnu. Ef til þess kemur, að Íslandsbanki hafi ekki handbæra peninga í sjóði, svo sem honum þykir þurfa, þegar Landsbankinn þarf að taka út úr hlaupareikningi sínum, hlutast landsstjórnin til um, að gefnir verði út seðlar svo sem nauðsyn krefur, og Landsbankinn kaupir (rediskonterar) víxla frá Íslandsbanka, sem upphæðinni nemur. Að öðru leyti mun stjórnin geta skýrt nánar frá efni þessa samnings, ef þörf þykir. Jeg lít svo á, sem þetta samkomulag sje gleðilegur vottur um batnandi samvinnu milli bankanna. Með því virðist Landsbankinn hafa gengið inn á þá braut að starfa sem seðlabanki eða þjóðbanki, en aðalverkefni slíkra banka er einmitt það að leggja öðrum bönkum þjóðfjelagsins til fjármagn, síður hitt, að lána sjálfir fje til áhættusams atvinnurekstrar. Með þessu hefir Landsbankinn sýnt hinum bankanum fullkomið traust.

Mjer finst, að við þingmennirnir, og allir þeir, sem hafa hag þjóðarinnar fyrir augum, ættum að láta þetta samkomulag bankanna verða okkur til fyrirmyndar um það, að vinna af heilum huga að eflingu beggja þessara lánsstofnana, en lána þeim ekkert eyra, sem af persónulegum hvötum eða af löngun til að umsteypa þjóðfjelagsskipuninni vilja níða aðrahvora stofnunina niður.